Gunnar Bragi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, hefur sagt sig úr flokknum og verður ekki í framboði fyrir hann í komandi kosningum. Þetta upplýsir hann í stöðuuppfærslu á Facebook. Þar segir hann enn fremur að ekki sé ljóst hvað hann geri nú en að það verði ákveðið á næstu dögum.
Í stöðuuppfærslu Gunnars Braga fjallar hann meðal annars um að menn sem hann hafi hingað til talið til hreinskiptinna vina sinna séu nú farnir að grafa undan persónu hans. Þau óheilindi séu leidd af fólki í trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn í hans heimabyggð og öðrum einstaklingum sem telji sig eiga að ráða framvindu mála.
Síðan segir m.a.: „Framsóknarfélagið mitt er klofið og ég sé að fólki er skipt í fylkingar. Gamla góða vinalega kveðjan er í sumum tilfellum orðin í besta falli kurteisisleg. Þetta á ekki að vera svona, þetta þarf ekki að vera svona. Öllu þessu mátti forða hefðu menn hlustað eða komið hreint fram. Því miður er það nú að rætast sem ég og fleiri vöruðum við og ég sagði við marga vini mína síðla sumars 2016 í upphafi innanflokksátakanna.
Þegar svona er komið þá veltir maður framtíðinni fyrir sér. Vil ég vinna í þessu umhverfi? Get ég unnið með fólki sem starfar með þessum hætti eða lætur það viðgangast? Ég hef undanfarið hitt eða hringt í fjöldann allan af frábæru fólki sem ýmist hvetur mig til að taka slaginn, “ekki láta þá komast upp með þetta” eða þá að það hvetur mig til að draga mig í hlé vegna ástandsins í flokknum.
Þegar ég rita þetta þá sit ég með hnút í maganum enda ekki létt að hverfa á braut. Eflaust gæti ég unnið forsystusætið en hvað er unnið með því ef samstarfið verður óbærilegt? Er heiðarlegt að bjóða sig fram vitandi að allar líkur eru á að maður myndi hrökklast úr þingflokknum?
Eftir að hafa ráðfært mig við fjölskyldu og vini hef ég ákveðið að draga framboð mitt til baka. Ég hef jafnframt ákveðið að segja mig úr Framsóknarflokknum.
Hef ég upplýst formann Kjördæmissambands framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi auk formanns og varaformanns Framsóknarflokkins um þetta.
Ég kveð flokkinn minn með mikilli sorg en sáttur við framlag mitt til hans. Ég mun sakna alls þess frábæra fólks sem þar er en margir þeirra hafa verið mér samferða þennan tíma.
Mér finnst miður að hafa ekki náð að tala við alla þá sem ég hefði viljað tala við undanfarna daga og þá vil ég biðja afsökunar.
Hvað ég geri nú er ekki ljóst en ég mun ákveða það næstu daga.“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, sagði sig úr flokknum á sunnudag og hefur nú stofnað nýjan flokk, Miðflokkinn. Sá mældist með 7,3 prósent fylgi í nýrri skoðanakönnun MMR og mældist þar stærri en Framsóknarflokkurinn. Gunnar Bragi hefur lengi verið stuðningsmaður Sigmundar Davíðs og staðið með honum í innanflokksátökum sem átt hafa sér stað í flokknum að undanförnu. Gunnar Bragi var til að mynda skráður í stjórn Framfarafélags Sigmundar Davíðs samkvæmt þeim skjölum sem upprunalega voru send til fyrirtækjaskráar vegna skráningar þess í upphafi septembermánaðar. Sú skráning hefur nú verið leiðrétt og nafn Gunnars Braga fjarlægt af lista yfir stjórnarmenn. Í hans stað er Sunna Gunnars Marteinsdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður Gunnars Braga, í stjórninni.