Breyting á skilgreiningu á Hringveginum, þjóðvegi 1, og vinna í tengslum við jarðgangatengingu við Seyðisfjörð,sem Jón Gunnarsson, starfandi samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, tilkynnti um á föstudag krefjast ekki mikilla fjárútláta. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið. Þar segir enn fremur að Jón hafi fullt umboð til að taka ákvarðanir sem þessar þrátt fyrir að hann sitji í starfsstjórn, ekki í reglulegri ríkisstjórn. Að mati samgönguráðuneytisins gegni starfsstjórn sama hlytverki og fráfarandi ríkisstjórn og tekur ákvarðanir í samræmi við hlutverk sitt og skyldur.
Einar Brynjólfsson, fulltrúi Pírata í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, hefur farið fram á að nefndin haldi opinn fund þar sem Jón skýri ákvörðunina og þær forsendur sem hún byggir á. Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður sem er nú utan flokka, hefur tekið undir beiðni Einars.
Tilkynnti um færsluna á föstudag
Jón tilkynnti um það á aðalfundi sveitarfélaga á Austurlandi á föstudag að hann hefði tekið ákvörðun um að skilgreining og merking Hringvegarins, þjóðvegar 1, yrði framvegis um firðina í stað þess að liggja um Breiðdalsheiði eins og nú er. Við það mun Hringvegurinn lengjast.
Í svari samgönguráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um þessa ákvörðun segir að ráðherra í starfsstjórn, líkt og þeirri sem nú situr fram að kosningum, hafi bæði rétt og skyldur til að sinna öllum nauðsynlegum stjórnsýsluverkefnum sem upp koma á starfsstjórnartímabilinu. „Í framangreindu tilliti gegnir starfsstjórn því sama hlutverki og fráfarandi ríkisstjórn og tekur ákvarðanir í samræmi við hlutverk sitt og skyldur.“
Ráðuneytið segir enn fremur að ákvörðun Jóns sé byggð á faglegu mati og ráðgjöf Vegagerðarinnar sem hefði lagt til þessa breytingu. „Þar sem vegurinn um Breiðdalsheiði lokast um lengri eða skemmri tíma að vetrarlagi fer umferð um þjóðveginn um þennan landshluta um firðina (Breiðdalsvík, Stöðvarfjörð, Fáskrúðsfjörð og Fáskrúðsfjarðargöng og Fagradal) en sú leið er meira og minna opin alla daga ársins. Bent hefur verið á að t.d. erlendir ferðamenn sem aka eftir GPS leiðsögukerfi halda gjarnan á Breiðdalsheiði þó að hún sé illfær eða lokuð og lenda iðulega í vandræðum. Eðlilegast er því að Hringvegurinn sé skilgreindur eftir þeirri leið sem opin er allt árið meðan ekki er kominn heilsársvegur um Öxi eins og ráðherra telur forgangsmál.“
Kostnaður við breytinguna er ekki mikil og felst einkum í vinnu við breytingar á skiltum, auglýsingum og upplýsingagjöf.
Nefnd skipum um jarðgöng við Seyðisfjörð
Jón tilkynnti einnig um að nefnd yrði skipuð sem ætti að gera tillögur um jarðgangatengingu við Seyðisfjörð. Kostnaður við hana mun, að sögn ráðuneytisins, einkum felast í ferðakostnaði nefndarmanna en þeim verði ekki greitt sérstaklega fyrir setu í nefndinni. „Nefndin mun skila af sér niðurstöðu um miðjan nóvember nk.
Ítrekað er að engar ákvarðanir hafa verið teknar um mögulegar framkvæmdir eða fjárframlög til þessa jarðgangaverkefnis umfram það sem þegar hefur verið kostað til vegna rannsókna á liðnum árum,“ segir í svarið ráðuneytisins.