Vísbendingar eru um að hægja sé á hækkunum íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Hækkunartaktur vísitölu íbúðaverðs náði hámarki í maí þegar fasteignaverð hafði hækkað um 23,5 prósent á einu ári. 12 mánaða hækkunartakturinn í ágúst var aftur á móti 19,1 prósent. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðarlánasjóðs.
Í skýrslunni kemur fram að miklar hækkanir fasteignaverðs að undanförnu eigi sér ákveðnar skýringar. Aukning kaupmáttar, lækkun vaxta íbúðalána og skortur á nýjum íbúðum eigi hvert um sig sinn þátt í að kynda undir verðhækkunum á fasteignamarkaði undanfarin misseri.
Að mati hagdeildar Íbúðalánasjóðs eru auknar líkur á að smám saman fari að draga úr verðhækkunum á fasteignamarkaði á næstu misserum, sér í lagi ef framboð fasteigna eykst í takti við þær áætlanir sem sést hafa að undanförnu.
Meiri sveiflur utan höfuðborgarsvæðisins
Meiri sveiflur eru í þróun fasteignaverðs á minni markaðssvæðum en á höfuðborgarsvæðinu. Segja skýrsluhöfundar að gera megi ráð fyrir að það sé að hluta til vegna sveiflna í efnahagsaðstæðum á þeim svæðum og að hluta til vegna færri undirliggjandi kaupsamningum en á höfuðborgarsvæðinu. Rétt sé að geta þess að vaxandi óvissa sé ætíð til staðar um þróun fasteignaverðs á hverjum tíma eftir því sem færri kaupsamningar liggja að baki hverri mælingu.
Frá áramótum 2002 til 2003 hefur íbúðaverð á Vestfjörðum hækkað nokkuð jafnt og þétt en þó talsvert minna en á höfuðborgarsvæðinu. Íbúðaverð á Austurlandi tók kipp þegar stóriðjuframkvæmdir þar stóðu sem hæst en lækkaði svo nokkuð og er nú á svipuðum slóðum að nafnvirði og þegar það var hæst árið 2006.
Ef horft er til vegins fermetraverðs eftir svæðum kemur hins vegar fram að um er að ræða talsvert ólík markaðssvæði, höfuðborgarsvæðið annars vegar og Austurland og Vestfirðir hins vegar. Mismunur á meðal fermetraverði á höfuðborgarsvæðinu og minni markaðssvæðum á landinu hefur almennt farið vaxandi frá árinu 2011. Rétt sé þó að geta þess að sá mismunur hafi einnig farið vaxandi innan mismunandi hverfa á höfuðborgarsvæðinu og sú þróun sé oft ólík innan hvers svæðis á landsbygginni.
Leiguverð hækkaði um 13,5% á einu ári
Frá ágúst 2016 til ágúst 2017 hækkaði leiguverð um 13,5 prósent á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma hækkaði kaupverð á fjölbýli um 19 prósent og laun um 7,2 prósent samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá og Hagstofunni. Á síðastliðnum 12 mánuðum hækkaði leiguverð um 7 prósentustigum hraðar en laun, sem er nokkuð skörp breyting frá þróuninni árin á undan.
Reiknuð ávöxtun af útleigu íbúða sem Þjóðskrá Íslands heldur utan um hefur almennt farið lækkandi frá árinu 2014, samhliða hröðum verðhækkunum á kauphliðinni. Meðalávöxtun leigusala hefur þannig farið stiglækkandi úr 8,3 prósent árið 2014 í um 7,8 prósent í ár.
Í skýrslunni kemur jafnframt fram að þessi neikvæða þróun fyrir þá sem eru á leigumarkaði ýti enn frekar undir þörf fyrir óhagnaðardrifið kerfi sem býður fólki upp á langtímaleigu í öruggu húsnæði hvernig sem aðstæður markaðarins eru þá stundina.
Heildarfjöldi þinglýstra leigusamninga dregst saman
Framboð leiguhúsnæðis á almennum leigumarkaði hefur samkvæmt tölum Þjóðskrár yfir þinglýsta leigusamninga farið minnkandi frá árinu 2014. Jafnframt hefur hlutur einstaklinga í hópi leigusala dregist talsvert saman á undanförnum árum, bæði í fjölda íbúða og hvað varðar hlutfall af heildarfjölda leigusala á almennum markaði.
Það sem af er árinu 2017 hefur heildarfjöldi þinglýstra leigusamninga dregist saman um 8,1 prósent frá fyrra ári og þar af fjöldi einstaklinga í hópi leigusala um 11,2 prósent. Skýrsluhöfundar segja að þarna spili eflaust inní bæði dvínandi ávöxtun af útleigu íbúða á almenna leigumarkaðnum og aukning í skammtímaleigu til ferðamanna.