Þýska alríkislögreglan hefur miðlað til íslenskra yfirvalda upplýsingum um málefni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem byggir á rannsóknum hennar á Panama-skjölunum. Frá þessu er greint á RÚV en fréttastofan hefur þessar upplýsingar úr grein Süddeutsche Zeitung, sem fjallar um lögregluaðgerðir á grundvelli upplýsinga úr skjölunum, sem þýsk yfirvöld ákváðu í sumar að kaupa á fimm milljónir evra, jafnvirði um 625 milljóna íslenskra króna.
Ekki kemur fram í grein Süddeutsche Zeitung hvaða upplýsingar um Sigmund þetta eru, hvort þær séu nýjar eða hvaða yfirvöld hér landi fengu þær í hendur. Samkvæmt RÚV sé hins hins vegar ekki annað að skilja á fréttum af gagnakaupum Þjóðverja í sumar en að þar sé mestmegnis um að ræða sömu gögn og íslenska ríkið ákvað að kaupa á 37 milljónir í apríl 2015 og fjölmiðlar fjölluðu svo um í apríl í fyrra.
Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra eftir að uppljóstrað var um það í umfjöllun um Panamaskjölin að hann hafi átt félagið Wintris ásamt eiginkonu sinni. Það félag er skráð til heimilis á Bresku Jómfrúareyjunum, var kröfuhafi í bú föllnu íslensku bankanna með kröfur upp á rúmlega 500 milljónir króna og var ekki tilgreint í hagsmunaskráningu Sigmundar Davíðs. Þegar Sigmundur Davíð var spurður um Wintris í sjónvarpsviðtali þá sagði hann ósatt um tilurð félagsins og tengsl sín við það.
Í frétt RÚV segir að eftir kaupin á gögnunum í sumar hafi þýska alríkislögreglan sett á fót sérstakt teymi til að vinna úr þeim. Í því séu 25 rannsakendur og sjö skattasérfræðingar sem hafa það hlutverk að fara í gegnum skjölin og ákveða hvort ráðast skuli í aðgerðir gegn þýskum ríkisborgurum sem þar er að finna. Í þýsku umfjölluninni komi fram að alríkislögreglan sé að rannsaka þrjú mál til viðbótar og hafi auk þess vísað sjö málum til saksóknara sem varði fjársvik, skattsvik og peningaþvætti. Þá vinni teymið náið með rannsakendum frá öðrum löndum, til dæmis Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi. Í því samhengi sé upplýsingagjöfin til Íslendinga nefnd.