Bjarni Benediktsson, núverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var í miklum samskiptum við starfsmenn og stjórnendur Glitnis í gegnum netfang sitt hjá Alþingi og netfang sem hann notaði í störfum sínum fyrir eignarhaldsfélagið BNT hf. frá árinu 2003 og fram yfir hrun. Þetta kemur fram í gögnum sem fréttastofa RÚV hefur undir höndum og greint var frá í kvöld. Allan þann tíma sem samskiptin stóðu yfir var Bjarni þingmaður.
Bjarni segir við RÚV að langbest sé að hafa skýr skil á milli viðskiptaþátttöku og stjórnmála. Hann hafi dregið þá línu fyrir löngu, en Bjarni tilkynnti að hann hefði dregið sig út úr öllum viðskiptaumsvifum í lok árs 2009, skömmu áður en að hann var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Bjarni segir að í ljósi þess að hann hafi verið þátttakandi í viðskiptalífinu á þessum tíma þá hafi svona mikið og persónuleg samskipti við Glitni verið eðlileg. Hann hafi verið stjórnarformaður BNT og stjórnarmaður í öðrum fyrirtækjum sem voru stórir viðskiptamenn Glitnis.
Í frétt RÚV kemur fram að í skýrslu sem KPMG vann fyrir slitastjórn Glitnis í lok ársins 2008 þá hafi Fjármálaeftirlitið skilgreint alla þá sem komu að undirbúningi þjóðnýtingar á Glitni í lok september 2008 sem innherja. Þar á meðal voru þingmenn, embættismenn og ýmsa ráðgjafa. Nafn Bjarna Benediktssonar var á þeim lista. Fréttastofa RÚV segir hins vegar að ekkert komi fram í gögnum sem hún hafi undir höndum sýni að Bjarni hafi framið lögbrot með viðskiptum sínum.
Í frétt RÚV segir að það hafi virst hafa skipt Glitni máli að Bjarni var alþingismaður á sama tíma og hann átti í viðskiptum við, eða í gegnum, bankann. Þetta hafi til að mynda birst í tölvupóstsamskiptum starfsmanns Glitnis við hinn breska Barclays banka vegna viðskipta BNT hf. í Bretlandi árið 2006. Þar tilgreinir starfsmaður Glitnis í London sérstaklega að Bjarni sé þingmaður þegar hann gefur upplýsingar um stjórnendur BNT.