Álverð hefur farið hækkandi að undanförnu og hefur það ekki verið hærra í á fimmta ár. Tonnið af áli kostar nú 2.139 Bandaríkjadali, samkvæmt upplýsingum hjá London Metal Exchange.
Álverð hefur sveiflast nokkuð, sé horft til síðustu fimm til tíu ára, og hefur það fara undir 1.500 Bandaríkjadali í lægstu sveiflunum. Í janúar á þessu ári fór það niður fyrir þá tölu, en hefur síðan hækkað um meira en 40 prósent.
Orkusölusamningar orkufyrirtækjanna hér á landi, eru að nokkru leyti tengdir álverði, en vægi slíkra tenginga í samningum Landsvirkjunar hefur þó farið minnkandi. Álverin í Straumsvík, á Grundartanga og á Reyðarfirði eru öll í erlendri eigu, en um 40 prósent af heildarútflutningsverðmæti álveranna verður eftir í landinu, einkum í gegnum laun, þjónustu af ýmsu tagi og raforkukaup.
Meðalverðið á áltonninu var 2.126 Bandaríkjadollarar í september. Hátt álverð var gert að umtalsefni í Hagsjá Landsbankans, en útflutningur á áli stóð undir 15,3 prósentum af heildarvöruútflutningi landsins í fyrra.
Í hagsjánni kemur fram að miklar verðhækkanir að undanförnu megi meðal annars rekja til mikilla umsvifa í Kína. „Þessar verðhækkanir að undanförnu má að töluverðu leyti rekja til þróunar í kínverskri álframleiðslu og ákvarðana sem ráðamenn í Kína hafa tekið varðandi greinina. Kínverjar eru stærstu álframleiðendur í heimi með tæplega 60% heimsframleiðslunnar. Framleiðslugetan í Kína á ársgrundvelli fór úr 5,4 milljónum tonna árið 2002 og upp í 43,7 milljónir í júní síðastliðnum,“ segir í hagsjánni.