Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við HÍ, segir ríkið ekki vel til þess fallið að leiða bankana í gegnum þær grundvallarbreytingar sem eru fram undan á bankamarkaði á komandi árum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag, þar sem fjallað er um breytingar á regluverki um bankastarfsemi.
Í umfjölluninni kemur fram að tekjur af viðskiptabankastarfsemi evrópskra banka gætu dregist saman um allt að fjórðung vegna nýrrar reglugerðar Evrópusambandsins um greiðsluþjónustu sem tekur gildi hér á landi á næsta ári, samkvæmt greiningu Sopra Banking.
Íslenska ríkið á mikla hagsmuni undir þegar kemur að fjármálakerfinu, en samanlagt nemur hlutdeild ríkisins í eigin fé endurreistu bankanna meira en 450 milljörðum króna. Eigið fé Landsbankans nemur um 260 milljörðum, eigið fé Íslandsbanka um 180 milljörðum og Arion banka 211 milljörðum, sé mið tekið af stöðunni eins og hún var um síðustu áramót. Ríkið á Landsbankann að nær öllu leyti (98 prósent) og Íslandsbanka að öllu leyti. Hlutur ríkisins í Arion banka nemur 13 prósentum.
Sérfræðingar sem Fréttablaðið vitnar til segja að innleiðing reglugerðarinnar, sem mun skylda banka til að veita öðrum fyrirtækjum aðgang að greiðslukerfum sínum, eigi eftir að gerbreyta íslenskum fjármálamarkaði og umbylta fjármálaþjónustu áður en langt um líður.
Íslensku bankarnir eru sagðir misvel í stakk búnir til að takast á við þær breytingar en tekjur af viðskiptabankastarfsemi standa undir um 90 prósentum af heildartekjum þeirra.
Gera megi ráð fyrir að færslu- og þóknanagjöld banka, sem eru stór hluti af viðskiptabankatekjum þeirra, lækki um 40 til 80 prósent þegar leikendum í greiðslumiðlun fjölgi. „Þeir muni byggja viðskiptamódel sín á allt öðrum tekjugrunni en bankar og kortafyrirtæki í dag,“ segir í umfjöllun Fréttablaðsins.