Embætti landlæknis er nú laust til umsóknar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu sem send var út í morgun.
Ráðuneytið auglýsir embætti landlæknis laust til umsóknar en skipað verður í embættið frá 1. apríl 2018 þegar Birgir Jakobsson lætur af störfum vegna aldurs, líkt og kveðið er á um í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Umsóknarfrestur er til 20. desember næstkomandi.
Birgir Jakobsson var skipaður landlæknir frá 1. janúar 2015. Hann tók við embættinu af Geir Gunnlaugssyni sem var landlæknir í fimm ár þar á undan.
Birgir hafði um langt skeið sinnt stjórnunarstörfum við ýmis sjúkrahús í Svíþjóð og í sjö ár var hann forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi. Sérgrein hans er barnalækningar og árið 1988 lauk hann doktorsprófi í sérgrein sinni við Karolinska Institutet.