Notkun þunglyndislyfja var langmest hér á landi miðað við önnur OECD-ríki árið 2015. Íslendingar notuðu 130 dagskammtar á hverja þúsund íbúa á dag eða meira en tvöfalt meiri en að meðaltali í OECD-ríkjum sem var 60 dagskammtar.
Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar. Efnahags- og framfarastofnunin í París (OECD) hefur gefið út ritið „Health at Glance 2017, OECD Indicators“. Í ritinu má finna margvíslegar upplýsingar um heilbrigðismál í aðildarríkjum stofnunarinnar sem nú eru 35 talsins auk fleiri landa.
Enn fremur segir í fréttinni að hér á landi fjármagni hið opinbera 38 prósent af lyfjaútgjöldum í smásölu en heimilin 58 prósent (aðrir 4 prósent) árið 2015. Aðeins í Lettlandi og Póllandi hafi hlutur heimilanna verið hærri. Á hinum Norðurlöndunum var hlutfallið 42 til 51 prósent.
Í þeim 30 OECD-ríkjum sem upplýsingar náðu til var hlutur hins opinbera og skyldutryggingar 57 prósent að meðaltali en hlutur heimilanna 39 prósent. Samkvæmt skýrslunni hefur lyfjanotkun farið ört vaxandi og er notkunin breytileg milli landa.
Árið 2015 var notkun sykursýkislyfja á Íslandi þriðja minnst miðað við önnur OECD-ríki. Notkun lyfja við háþrýstingi og blóðfitulækkandi lyfja var hér undir meðaltali OECD.
Rit OECD byggir á gagnagrunni stofnunarinnar um heilbrigðismál en einnig ýmsum öðrum gögnum. Segir enn fremur í frétt Hagstofunnar að mikilvægt sé að hafa í huga að samanburður milli landa á þann hátt sem kemur fram í riti OECD er aðeins mögulegur í þeim tilvikum þar sem upplýsingar eru aðgengilegar. Að auki þurfi alltaf að hafa í huga að óvissa kann að ríkja um samanburðarhæfi gagna frá mismunandi löndum, til dæmis vegna ólíkra skilgreininga eða aðferða við útreikning.