Á undanförnum árum hafa Norðurlöndin þurft að ganga í gegnum ýmsar hamfarir á borð við náttúru- og tæknihamfarir og hamfarir af mannavöldum. Slíkar hamfarir eru að aukast og til þess að verja þá sem minnst mega sín í samfélögunum er mikilvægt að félagsþjónustan sé hluti af sérstöku neyðarteymi.
Þetta kemur fram í lokaskýrslu Norrænu velferðarvaktarinnar. Um er að ræða skýrslu í TemaNord ritröðinni en hún er helguð árangri af starfi vinnuhópa eða verkefna á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.
Segir í skýrslunni að tilgangurinn með þeim tillögum sem lagðar eru fyrir í henni sé að gera norræna velferðarkerfið öflugra og betra í stakk búið til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.
Norræna velferðarvaktin var rannsóknarverkefni í formennskuáætlun Íslands 2014 og náði til þriggja ára. Markmið verkefnisins var að finna betri leiðir til að mæla og fylgjast með velferð borgaranna, rannsaka áhrif fjármálaþrenginga og tengdra afleiðinga á norrænu velferðarkerfin og kortleggja hlutverk félagsþjónustu við hvers konar vá.
Umfangsmiklar skýrslur hafa verið gefnar út á vegum verkefnisins og er fjallað um helstu niðurstöður þeirra í lokaskýrslunni. Einnig er fjallað um Norrænan velferðarumræðuvettvang og frekari útfærslu nýrra Norræna velferðarvísa. Verkefnið skiptist í þrjá meginþætti.
Finnland, Noregur og Svíþjóð með sérstaka áherslu á félagsþjónustu
Í fyrsta lagi er fjallað um velferð og vá í skýrslunni. Segir í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu að metið hafi verið hvernig norræn velferðarkerfi eru undirbúin undir hvers konar vá með sérstaka áherslu á hlutverk félagsþjónustu. Dreginn hafi verið lærdómur af starfi Velferðarvaktarinnar sem var stofnsett hér á landi í kjölfar efnahagskreppunnar, viðbragðskerfi annarra Norðurlanda kortlögð og skoðað hvernig norræn velferðarkerfi þurfa að búa sig undir áskoranir komandi ára. Sérstök áhersla hafi verið lögð á hlutverk félagsþjónustu og hvernig hún geti aukið viðnámsþrótt einstaklinga og samfélaga.
Í aðalniðurstöðum segir að Finnland, Noregur og Svíþjóð leggi sérstaka áherslu á félagsþjónustu í regluverki þeirra þegar erfiðir tímar steðja að. Í skýrslunni er bent á að í Svíþjóð séu regluverkin fólgin í lögunum sjálfum sama hverjar aðstæður eru, en sérstök lög séu í hinum löndunum tveimur þegar um óvissuástand er að ræða.
Öll Norðurlöndin ætlast til þess að yfirvöld búi til áætlun fyrir óvissutíma, þrátt fyrir að á Íslandi og í Danmörku sé ekki fjallað sérstaklega um hlutverk félagsþjónustu þegar vá stendur yfir. Hins vegar beri henni að gera áætlun ef eitthvað kemur upp á.
Dreginn lærdómur af mistökum og sigrum
Í öðru lagi er fjallað um kreppur og velferð í skýrslunni. Segja skýrsluhöfundar að gerð hafi verið víðtæk rannsókn á afleiðingum fjármálakreppa á Norðurlöndunum, bæði á yfirstandandi kreppu og kreppum um 1990 og könnuð sérstaklega viðbrögð stjórnvalda og árangur af þeim. Gerður hafi verið samanburður við valin Evrópulönd svo sem Eystrasaltsríkin, Írland, Bretland, Grikkland, Ungverjaland, Spán og Portúgal.
Dreginn hafi verið lærdómur af því sem vel var gert og öðru sem skilaði ekki árangri. Þau segja að Oxford University Press hafi samþykkt að gefa út bók út frá þessu verkefni, sem ber vinnuheitið Welfare and the Great Recessio.
Í úrdrætti úr bókinni kemur fram að reynslan af efnahagshruninu hafi verið mjög mismunandi milli þjóða. Slíkt hið sama hafi verið uppi á teningnum í kreppunni á fjórða áratug síðustu aldar en mismunurinn hafi falist í því að velferðarkerfið er öflugra nú en þá og í öðru lagi að meiri þekking er á því hvernig eigi að koma í veg fyrir efnahagslegar kreppur og bregðast við þeim. Þessi þekking hafi aftur á móti verið notuð með mismunandi hætti eftir þjóðum.
Misjafn árangur milli þjóða
Atvinnuleysi, fjárhagsörðugleikar, ójöfnuður og fátækt jókst gríðarlega í kreppunni. Áhrifin voru misjöfn milli landa, jafnvel milli þeirra landa sem verst komu út úr henni. Í bókinni segir enn fremur að sum löndin við Miðjarðarhafið hafi komið einstaklega illa út úr hruninu og átt erfitt með að rísa upp á ný. Önnur ríki á borð við Eystrasaltsríkin, Írland og Íslandi hafi komið illa út úr sömu kreppu en gengið betur og hraðar að byggja upp samfélagið að nýju.
Einnig er bent á að Norðurlöndin hafi komið tiltölulega vel út úr efnahagshruninu fyrir utan Ísland.
Í þriðja og síðasta lagi voru unnar tillögur að Norrænum velferðarvísum og segir í skýrslunni að tilgangurinn hafi verið að auðvelda stjórnvöldum yfirsýn yfir samfélagsþróunina á hverjum tíma. Slíkir velferðarvísar auðvelda stefnumótun og ákvarðanatöku þannig að unnt verði að efla frekar norrænu velferðarkerfin.