Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, hefur gert það upp við sig að hann ætlar að gefa kost á sér áfram í sveitarstjórnarkosningunum vorið 2018. Þetta staðfesti hann í sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut á miðvikudag.
Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér að ofan.
Dagur segir að hann eigi ekki von á því að mörg umfjöllunarefni kosninganna í voru muni koma á óvart. Það séu mjög stór mál í gangi sem mikilvægt sé að nái til enda. „Þótt allir séu kannski ekki alveg sammála öllu sem ég hef sagt eða gert þá held ég að fólk viti nokkuð fyrir hvað ég stend og að valkostirnir verði nokkuð skýrir í vor.“
Hann segist ekki átta sig á því hver helstu ágreiningsmálin verði. Sjálfsagt muni þétting byggði, útlit borgarinnar og samgöngumál skipta máli. „Ég vona að húsnæðismál verði áfram áhersluatriði og að fólk átti sig á því sem borgin hefur verið að gera og hvernig það sker sig úr, í raun svolítið pólitísk frá því sem önnur sveitarfélög hafa verið að gera.“