Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmenn Vinstri grænna, styðja ekki ríkisstjórnarsamstarf Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins.
Þetta kom fram í fréttum RÚV í kvöld, en flokksráð Vinstri grænna hefur nú málefnasamning flokkanna til umfjöllunar, og mun greiða atkvæði um hann í kvöld.
Þingflokkur Vinstri grænna telur 11 þingmenn, og er nú ljóst að 9 þingmenn styðja samstarfið en ekki allir. Það þýðir að meirihluti flokkanna þriggja yrði myndaður með 33 þingmönnum en ekki 35, af 63, ef samstarfið verður samþykkt hjá Framsókn og Vinstri grænum.
Andrés og Rósa lýstu því strax yfir að þau væru mótfallin samstarfi með Sjálfstæðisflokknum, og hafa nú ítrekað þá afstöðu.
Eins og greint var frá fyrr í kvöld hafa Sjálfstæðismenn þegar samþykkt stjórnarsamstarfið fyrir sitt leyti, en einhugur var um það innan flokksráðs flokksins.
Miðstjórn Framsóknarflokksins er enn að funda um málið, og mun niðurstaða liggja fyrir í kvöld, líkt og hjá Vinstri grænum.