Á fjölmennum fundi flokksráðs Sjálfstæðisflokksins, sem lauk rétt í þessu, var tillaga um þátttöku Sjálfstæðisflokksins í myndun ríkisstjórnar ásamt Vinstri grænum og Framsóknarflokknum samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.
Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, er formaður flokksráðs og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sem er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, að sama skapi varaformaður flokksráðsins.
Ráðið er nokkuð fjölmennt en miðstjórn flokksins, framkvæmdastjórn, fjármálaráð, upplýsinga- og fræðslunefnd, stjórn sveitarstjórnarráðs, starfsmenn flokksins í fullu starfi, formenn málefnanefnda, alþingismenn og frambjóðendur til alþingiskosninga og fyrrum kjörnir alþingismenn flokksins eru allir sjálfkjörnir í flokksráðið. Þá skipa kjördæmisráð og landssambönd fulltrúa í ráðið.
Ráðið verður að samþykkja ríkisstjórnarsamstarf, áður en það er formlega myndað.
Flokksráð Vinstri grænna er nú að funda um málefnasamning flokkanna, og sömuleiðis miðstjórnin hjá Framsóknarflokknum. Endanlega mun liggja fyrir í kvöld hvort af ríkisstjórnarsamstarfi flokkanna verður, og þá undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna.