Guðrún Johnsen, sem hefur verið varaformaður stjórnar Arion banka, hefur verið látin hætta í stjórn bankans. Sæti hennar tekur Steinunn Kristín Þórðardóttir, sem hefur verið varamaður í stjórninni. Hún er tilnefnd í stjórnina af Kaupskilum.
Þetta var ákveðið á hluthafafundi Arion banka sem fram fór fimmtudaginn 30. nóvember.
Stjórn Arion banka skipa nú: Eva Cederbalk formaður, Brynjólfur Bjarnason, Jakob Már Ásmundsson, John P. Madden, Kirstín Þ. Flygenring, Måns Höglund, Steinunn Kristín Þórðardóttir og Þóra Hallgrímsdóttir. Kirstín er fulltrúi Bankasýslu ríkisins í stjórninni, Steinunn er tilnefnd að Attestor Capital, en aðrir eru tilnefndir af Kaupskilum.
Í fréttatilkynningu frá Arion banka segir að Steinunn Kristín hafi starfað sem framkvæmdastjóri hjá Beringer Finance á árunum 2015-2017, fyrst í Noregi og síðar á Íslandi auk þess að gegna stöðu forstöðumanns alþjóðadeildar fyrirtækisins á sviði matvæla og sjávarfangs. Árið 2010 stofnaði Steinunn ráðgjafafyrirtækið Akton AS í Noregi og var framkvæmdastjóri þess til ársins 2015. Hún starfaði hjá Íslandsbanka, sem þá hét Glitnir, á árunum 2001-2008, fyrst sem forstöðumaður alþjóðalánveitinga og síðar sem framkvæmdastjóri bankans í Bretlandi.
Steinunn er með MIM gráðu frá Thunderbird og BA gráðu í alþjóðaviðskiptum og stjórnmálafræði frá University of South Carolina.
Vogunarsjóðir stórir í eigendahópnum
Í mars var tilkynnt að fjórir aðilar, vogunarsjóðirnir Taconic Capital, Och-Ziff CapitalManagement, Attestor Capital og fjárfestingabankinn Goldman Sachs hefðu keypt samtals 29,18 prósent hlut í Arion banka af Kaupþingi á 48,8 milljarða króna. Verðið sem greitt var fyrir er um 0,8 krónur á hverja krónu af bókfærðu eigin fé Arion banka.
Þegar samið var um stöðuleikaframlög setti íslenska ríkið inn ákvæði þess efnis að það gæti gengið inn í viðskipti með hluti í Arion banka ef gengið yrði lægra en 0,8 af bókfærðu eigin fé bankans. Í því samkomulagi var líka samið um að Kaupþing þurfi að selja hlut sinn í Arion banka fyrir árslok 2018. Ef það myndi ekki takast myndi ríkissjóður leysa bankann til sín.
Í viðskiptunum fólst því að eigendur ⅔ hluta Kaupþings voru að kaupa stóran hluta í Arion banka á eins lágu verði og mögulegt var fyrir þá án þess að virkja ákvæði sem gerði íslenska ríkinu kleift að ganga inn í kaupin.
Til viðbótar átti þessi hópur kauprétt á 21,9 prósent hlut í Arion banka. Hefðu þeir nýtt hann yrðu vogunarsjóðirnir þrír og Goldman Sachs beinir eigendur að meirihluta í Arion banka.
Þessir fjórir aðilar keyptu hlutinn í Arion banka af Kaupþingi ehf. eiga líka samtals 66,31 prósent hlut í Kaupþingi. Langstærsti einstaki eigandi Kaupþings eru sjóðir í stýringu Taconic Capital með 38,64 prósent eignarhlut. Næst stærsti eigandinn er lúxemborgískt félag tengd Och-Ziff Capital Management Group með 14,21 prósent eignarhlut. Þriðji stærsti hópurinn eru sjóðir í stýringu hjá Attestor Capital, sem eiga 8,63 prósent hlut. Fjárfestingabankinn Goldman Sachs og sjóður í stýringu hans eru síðan skráðir fyrir 4,83 prósent hlut. Því er ljóst að sjóðirnir voru að selja sjálfum sér hluti í Arion banka. Og beinn og óbeinn hlutur þeirra í bankanum er samanlagt mun hærri en sá hlutur sem keyptur var.
Í ágúst var tilkynnt að þeir ætluðu sér ekki að nýta sér kauprétt á 21,9 prósent hlut sem þeir höfðu samið um, og þurftu að nýta fyrir 19. september.
Til stóð að Arion banki yrði skráður á markaði í október eða nóvember en því var frestað vegna kosninga á Íslandi. Stefnt er að því að af skráningunni verði á fyrsta ársfjórðungi 2018.