Aldrei hefur meira verið notað af vatni úr hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu í nóvembermánuði en nú í ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Skýringuna telja þau vera að mánuðurinn hafi verið frekar kaldur og stormasamur undir lokin. Um 90 prósent af heita vatninu fer til húshitunar og í nóvember runnu tæpir níu milljarðar lítra af heitu vatni inn í hús frá Hafnarfirði í suðri til Mosfellsbæjar í norðri. Það er 15 prósent meira magn en sama mánuð í fyrra.
Samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar var nóvember kaldur. Meðalhiti í Reykjavík mældist 0,2 stig, -0,9 stigum neðan meðallags áranna 1961 til 1990 og -2,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Augljóst samhengi er því á milli tíðarfarsins og heitavatnsnotkunarinnar.
Íslensk heimili nota árlega að meðaltali 4 til 5 tonn af heitu vatni á hvern fermeter húsnæðis. Í tilkynningunni segir að til að spara og lækka reikninginn hjá sér sé líklegt til árangurs að hafa hitakerfi og ofna rétt stillt fremur en til dæmis að fækka baðferðum. Ein baðferð kosti ekki mikið en hundrað- og þúsundkallarnir geti fljótt safnast upp ef bilun er í kerfi, ofnar rangt stilltir, illa einangrað eða gluggar sífellt upp á gátt.
Heita vatnið sem notað er á höfuðborgarsvæðinu kemur annars vegar frá lághitasvæðum í Mosfellsbæ og Reykjavík, nánar tiltekið í Laugarnesinu og Elliðaárdal og hins vegar frá háhitasvæðum á Nesjavöllum og nýjasta viðbótin kom á árinu 2010 þegar heitavatnsframleiðsla hófst í Hellisheiðarvirkjun.