Stóra myndin í fjárlagafrumvarpinu er að skýrast, en ríkisstjórnin vinnur nú að því að koma saman helstu áherslum ráðuneyta, áður en Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, leggur fram nýtt frumvarp.
Ljóst er að mikið kapp við tímann er framundan, þar sem samþykkjar þarf fjárlög fyrir næsta ár fyrir áramót, en skammur tími verður til umfjöllunar á Alþingi. Nú er stefnt að því að Alþingi komi saman 14. desember.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í fréttum RÚV í kvöld að hún hefði „góð orð“ frá leiðtogum annarra flokka fyrir því að þetta muni ganga upp.
Í fjárlagafrumvarpi Benedikts Jóhannessonar, þáverandi fjármálaráðherra, var ráð fyrir því gert að afgangur yrði 44 milljarðar af fjárlögum næsta árs, en útlit er nú fyrir að hann verði eitthvað minni í fjárlagafrumvarpi Bjarna.
Sérstaklega er þrýst á um aukin útgjöld til heilbrigðis- og menntamála, auk þess sem auknar áherslur á samgönguframkvæmdir munu birtast í fjárlögunum. Þá munu breytingar á gjöldum og skattheimtu einnig setja sitt mark á frumvarpið. Betri afkomu af ríkisrekstrinum, þegar kemur að tekjum, mun þó koma á móti og hafa áhrif til góðs á heildarútkomuna.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, er fjallað um efnahagsmálin meðal annars útfrá mikilvægi þess að styrkja innviði landsins. „Tekist hefur að ná jafnvægi í ríkisfjármálum en þegar horft er til innviða samfélagsins og nýrra viðfangsefna blasa við brýn og umfangsmikil verkefni. Efnahagur á landsvísu hefur vænkast hratt undanfarin ár en gæta þarf að jafnvægi með þjóðinni og tækifærum allra sem landið byggja. Stefna þarf að stöðugleika til lengri tíma og auka gagnsæi í athafnalífi og allri stjórnsýslu til að efla traust almennings á rekstri fyrirtækja, fjármálalífi, stjórnmálum og stofnunum samfélagsins,“ segir í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar.