Óhætt er að segja að það mikla gjaldeyrisinnstreymi sem fylgt hefur vextinum í ferðaþjónustunni á undanförnum árum hafi gjörbreytt íslenska hagkerfinu. Á þremur á hálfu ári nemur afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum 480 milljörðum króna.
Munar þar langsamlega mest um mikinn afgang af þjónustuviðskiptum, og þar er ferðaþjónustan langsamlega fyrirferðamest. Viðvarandi halli er þó á vöruviðskiptum, en á síðasta ársfjórðungi jókst hann um 25 milljarða króna frá sama tíma í fyrra, og var 47,5 milljarðar króna. Afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum nam 68 milljörðum á þriðja ársfjórðungi þessa árs en hann var yfir 100 milljarðar á sama tíma í fyrra.
Í hagsjá hagfræðideildar Landsbankans er þetta gert að umtalsefni og sagt að þetta sé mikil breyting frá því sem hefur verið raunin lengst af íslenskri hagsögu. Viðvarandi viðskiptahalli hefur gert okkur lífið leitt, má segja, og er talað um „krónískan“ halla í úttekt Landsbankans.
Breytingin til hins betra er mikil, og eins og áður sagði þá munar mest um hinn ótrúlega vöxt sem verið hefur í ferðaþjónustunni.
Árið 2010 komu um 450 þúsund ferðamenn til landsins, en gert er ráð fyrir að þeir verði um 2,3 milljónir á þessu ári og jafnvel upp undir þrjár milljónir árið 2019.