Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis, íhugar nú hvort hún ætli að bjóða sig fram í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
„Það er í skoðun. Það hafa ansi margir heyrt í mér varðandi þetta,“ segir Unnur Brá, í samtali við Fréttablaðið.
Unnur Brá var forseti Alþingis á síðasta þingi en féll af þingi í kosningunum í október, en hún skipaði fjórða sæti lista Sjálfstæðisflokksins í suðurkjördæmi. Fyrir ofan hana á listanum voru þingmennirnir Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Friðriksson og Páll Magnússon.
Leiðtogakjör Sjálfstæðismanna í Reykjavík fer fram hinn 27. janúar næstkomandi en opnað verður á framboð mánuði fyrr, 27. desember.
Framboðsfrestur verður tvær vikur. Fyrirkomulagið verður á þann veg að kosið verður um oddvita listans en uppstillingarnefnd mun sjá um að raða í önnur sæti listans. Áslaug Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon, sitjandi borgarfulltrúar, hafa gefið út að þau muni sækjast eftir því að fara fyrir listanum.
Á meðal þeirra sem orðaðir hafa verið við leiðtogasætið eru Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, og Eyþór Arnalds, sem er meðal eigenda Morgunblaðsins.