Ríkisstjórnin fjallaði á fundi sínum í morgun um siðareglur ráðherra, en markmiðið með endurskoðun reglnanna verður að skerpa á hagsmunaskráningu ráðherra með það í huga að skýr aðskilnaður verði milli almanna- og sérhagsmuna, auk þess sem skerpt verður á því hvernig megi innleiða „heilindi“ í starfi hjá hinu opinbera, í víðara samhengi.
Þetta herma heimildir Kjarnans, en ríkisstjórnin tilkynnti um það í dag, að siðareglur yrðu teknar til endurskoðunar.
Nú eru í gildi siðareglur ráðherra nr. 190/2017 og hafa þær ekki tekið miklum efnislegum breytingum frá því þær voru fyrst gefnar út vorið 2011, að því er segir í tilkynningu frá ríkisstjórninni.
Ákveðið var á fundinum að forsætisráðherra myndi kalla til utanaðkomandi sérfræðinga til ráðgjafar „ekki einungis varðandi siðareglur ráðherra heldur einnig varðandi heilindi í opinberum störfum í víðara samhengi.“
Ráðgert er að setja á fót starfshóp sem mun ráðleggja og aðstoða við að ná fram eftirfarandi þáttum úr stjórnarsáttmála: „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Einn þáttur í því er að yfirfara reglur um hagsmunaskráningu bæði ráðherra og þingmanna með hliðsjón af ábendingum og alþjóðlegum viðmiðum. Annar þáttur er breytingar á lögum sem varða vernd uppljóstrara og umbætur í umhverfi stjórnsýslu og viðskipta, meðal annars í takt við ábendingar alþjóðastofnana.“
Þá verður gætt að lögbundnu samráði við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, segir í tilkynningunni.
Í reglunum er meðal annars vikið að hagsmunaskráningu með þessum orðum:
„2. grein hagsmunatengsl og hagsmunaárekstrar
1. Ráðherra forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar og gætir þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf sín. Takist honum ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi skal hann upplýsa um þá.
2. Ráðherra upplýsir um fjárhagsleg hagsmunatengsl eða önnur slík tengsl sem valdið geta hagsmunaárekstum með því að fylla út eyðublað á vegum skrifstofu Alþingis, sbr. reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings. Forsætisráðherra getur í samráði við ríkisstjórn ákveðið að kalla með skipulögðum hætti eftir frekari upplýsingum um hagsmunatengsl ráðherra sem birtar yrðu almenningi.
3. Ráðherra beitir sér fyrir því innan ráðuneytis og þeirra stofnana sem undir það heyra að tekið sé á hagsmunaárekstrum strax og þeir koma upp og hann fær vitneskju þar um. Þá skal hann beita sér fyrir því að starfsfólk sé sér meðvitað um mögulega hagsmunaárekstra og leiðir til að koma í veg fyrir þá.“
Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili skýrslu til forsætisráðherra eigi síðar en 1. september 2018, og verði þá í kjölfarið skerpt á áherslum sem eiga að tryggja skýran aðskilnað sérhagsmuna frá almannahagsmunum innan ríkisstjórnarinnar og hins opinbera.
Ríkisstjórnin mun staðfesta fyrir sitt leyti og starfa eftir framangreindum siðareglum ráðherra á meðan unnið er að endurskoðun samkvæmt framangreindu, segir í tilkynningunni.