Gert er ráð fyrir allt að fimmtán milljarða innspýtingu í rekstur bæði heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins umfram það sem stefnt var að með fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar í nýju fjárlagafrumvarpi.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag, en í fjárlagafrumvarpi Benedikts Jóhannessonar, þáverandi fjármálaráðherra, var gert ráð fyrir 44 milljarða króna afgangi á rekstri ríkissjóðs.
Fjárlagafrumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, verður lagt fram á fimmtudag, þegar nýtt þing kemur saman. Ljóst er að umfjöllun um fjárlagafrumvarpið þarf að ganga hratt fyrir sig, til að fjárlög fáist samþykkt fyrir hátíðar eða áramót, en Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur sagt að hún vonist til umræðan muni ganga vel og að það náist góð sátt um fjárlagafrumvarpið.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir í viðtali við Fréttablaðið að auknir fjármunir muni fara í grunnheilbrigðisþjónustuna. „Innspýtingin fer í hina opinberu heilbrigðisþjónustu; Landspítalann, heilsugæsluna og hinar almennu sjúkrastofnanir um landið [...] Þessi hluti af almannaþjónustunni hefur þurft að bíða allt of lengi og fólk hefur þurft að hlaupa hraðar og gera meira í allri heilbrigðisþjónustunni allt frá hruni og í rauninni lengur. Þannig að það er kominn tími til að þessir innviðir fari að finna fyrir því að okkur er að ganga betur,“ segir Svandís.
Í stjórnarsáttmála Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins er sérstök áhersla lögð á að efla innviði í landinu, og er sérstaklega fjallað um heilbrigðis-, mennta-, og samgöngumál í því samhengi, og einnig fjarskipti.