Þrátt fyrir að hagtölur séu hagfelldar þessi misserin, og að vel gangi á flestum vígstöðum, þá sýna nýjustu tölur úr ferðaþjónustunni að nokkuð hefur dregið úr vexti í greininni að undanförnu.
Þannig var fjöldi ferðamanna í nóvember um 9,8 prósent meiri en í fyrra, sem er minnsta aukning milli ára í sex ár, eða frá því haustið 2011.
Í greiningu Arion banka segir að fjölgunin hafi verið nokkuð undir spá ISAVIA sem kynnt var á dögunum. „Það er jafnvel athyglisverðara að í nóvember fjölgaði ferðamönnum mun minna en skv. spá ISAVIA sem birt var í nóvember og gerði ráð fyrir 31% fjölgun. Að hluta til skýrist þetta af því að farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 20% en ekki 24% eins og spáð hafði verið. Einnig skiptir máli að hlutfall skiptifarþega var fimm prósentustigum hærra en spáð hafði verið eða 34%. Með það í huga og að Pólverjar stóðu undir nærri fimmtungi fjölgunar erlendra farþega sem fara frá landinu er því líklegt að raunverulegur fjöldi erlendra ferðamanna hafi verið lægri í nóvember. Stærsti hópur erlendra ríkisborga hér á landi er sem kunnugt er með pólskt ríkisfang, eða 46% erlendra ríkisborgara, og því er væntanlega um að ræða íbúa landsins að miklu leyti í tölum um brottfarir Pólverja,“ segir í greiningunni.
Fjölgun ferðamanna á undanförnum árum hefur verið helsti drifkrafturinn að baki uppgangi í efnahagslífinu á undanförnum árum.
Árið 2010 komu um 450 þúsund erlendir ferðamenn til landsins en útlit er fyrir að fjöldinn verði kominn í 2,3 milljónir á þessu ári.
Á fyrstu átta mánuðum ársins var kortavelta erlendra ferðamanna 188 milljarðar króna, en hún hefur aukist stöðugt frá ári til árs undanfarin ár.
Í greiningu Arion banka segir að ef þessi kólnun, sem nú er farin að sjást í tölum úr ferðaþjónustunni, muni skjóta rótum þá gæti verðbólgan farið hækkandi og gengi krónunnar gefið eftir. „Ef hægari fjölgun ferðamanna er það sem koma skal, sérstaklega ef hún verður undir spám, mun það hægja á vexti hagkerfisins að óbreyttu. Það gæti því opnað á svigrúm til frekari vaxtalækkana á næsta ári. Það er þó háð ýmsu og mögulega óskhyggja því hægari fjölgun ferðamanna eða stöðnun í fjölda þeirra gæti jafnvel leitt til að krónan gefi eitthvað eftir á næstunni sem myndi auka verðbólgu og því kalla á hærri vexti en ella,“ segir í greiningu Arion banka.