Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi ríkisstjórn Katrín Jakobsdóttur harðlega í ræðu sinn í kvöld, og sagði fjárlagafrumvarpið sem nú væri komið fram sýna að ekki ætti að uppræta ójöfnuð í samfélaginu.
Sagði hann að ýmislegt jákvætt mætti þó telja til, eins og metnaðarfull markmið í loftslagsmálum, en sagði hann engu að síður að engin sátt væri í augsýn eins og boðað hefði verið. Þvert má móti væri ójöfnuður festur í sessi, og vegalitlar breytingar á skattkerfinu væru ekki til þess fallnar að vinna að sátt. „Öllum óskum minnihlutans var hafnað en með sáttinni vísað í þverpólitískar nefndir, meðan annars í stjórnarskrármálinu og um útlendingalög [...] Það sem einkum hefur skilið að þessa flokka að er afstaða þeirra til skattkerfisins og viðhorf til jöfnuðar. Í stjórnarsáttmálanum felst sú málamiðlun að Vinstri græn halla sér þétt upp að Sjálfstæðisflokknum í skattamálum. Hún felst því aðallega í því að gefa afslátt í baráttunni gegn ójöfnuði,“ sagði Logi.
Þá sagði hann stefnu ríkisstjórnarinnar vera ekki vera skynsamlega, út frá hagstjórninni séð. Nú væri rétti tíminn til að styrkja tekjugrundvöll samneyslunnar. „Á toppi hagsveiflu er besti tíminn til þess að auka tekjur og jafna kjörin. Það er auk þess skynsamlegt, til þess að fresta og milda næstu niðursveiflu, lækka vexti og halda aftur af verðbólgu. Ríkisstjórnin ætlar hins vegar að setjast í sófann, éta úr ísskápnum og hirða ekki um að fara út og draga björg í bú. Þeim finnst líklega nóg vera til en skilja afleiðingar eftir fyrir næstu ríkisstjórn [...] Herra forseti. Bilið milli fátækra og ríkra mun halda áfram að aukast, undir forsæti sósíalista. Einhvern tímann hefðu það þótt tíðindi.“