Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur gerir ráð fyrir því að ríkissjóður verði rekin með 35 milljarða króna afgangi á næsta ári. Það er umtalsvert minni afgangur en frumvarp síðustu ríkisstjórnar, sem var lagt fram í september, gerði ráð fyrir. Þá átti afgangurinn að vera 44 milljarðar króna. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs hafa auk þess hækkað á undanförnum mánuðum. Í september voru þær áætlaðar 834 milljarðar króna en eru nú áætlaðar 840 milljarðar króna. Áætluð útgjöld ríkisins á næsta ári hafa því verið aukin um 15 milljarða króna af nýrri ríkisstjórn. Skuldir ríkissjóðs eiga að lækka um 50 milljarða á næsta ári.
Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsmálaráðuneytinu segir að veruleg aukning verði til mennta-, umhverfis- og samgöngumála. Á kjörtímabilinu stefnir ríkisstjórnin að því að draga úr álögum, gera skattheimtu sanngjarnari og tryggja skilvirkt skatteftirlit. „Áhersla verður lögð á lækkun tekjuskatts í neðra skattþrepi á kjörtímabilinu og forgangsmál er að lækka tryggingagjald. Hvort tveggja er háð framvindu á vinnumarkaði og tekjuskattslækkun tekur að auki mið af öðrum aðstæðum í hagkerfinu.“
Kjarninn mun fjalla ítarlega um helstu áherslur frumvarpsins í fréttaskýringu síðar í dag.
Helstu áherslur samkvæmt frumvarpinu eru:
- Aukið er við framlög til heilbrigðismála,meðal annars með innspýtingu í heilsugæsluna, með auknum niðurgreiðslum á tannlæknakostnaði aldraðra og örorkulífeyrisþega og með auknum framlögum til lyfjakaupa. Einnig er sjúkrahússþjónusta á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni styrkt, bæði til rekstrar og tækjakaupa, og sérstakt framlag er veitt til þjónustu við þolendur kynferðisbrota utan höfuðborgarsvæðisins. Heildarhækkun framlaga til heilbrigðismála milli fjárlaga 2017 og 2018 nemur ríflega 21 milljarði króna.
- Útgjöld til barnabóta hækka um tæpan 1 ma.kr. frá árinu 2017, í 10,5 ma.kr. úr 9,6 ma.kr. Framlög vegna fæðingarorlofs hækka um rúmlega 1 milljarð króna og frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verður hækkað í upphafi árs 2018 úr 25.000 kr. í 100.000 kr. á mánuði, sem eykur útgjöld um 1,1 ma.kr.
- Á sviði mennta, menningar og íþróttamála verða talsverðar breytingar til hækkunar, sé miðað við forsendur fjármálaáætlunar. Þar má nefna 450 milljón króna framlag til máltækniverkefnis og þá eru framlög til framhaldsskóla aukin um 400 milljónir króna og framlög til háskóla um 1 milljarð króna. Er þetta liður í að auka gæði náms á þessum skólastigum og er markmiðið að hækka framlög á hvern ársnemenda háskólanna þar til þau verða orðin sambærileg við OECD ríkin árið 2020 og síðan við Norðurlöndin árið 2025. Alls aukast framlög til mennta-, menningar- og íþróttamála um 5,5 ma.kr.
- Veruleg aukning er til ýmissa verkefna á sviði samgöngu- og fjarskiptamála, samtals 3,6 milljarðar króna, og til umhverfismála eða 1,7 milljarðar króna til að vinna upp málahalla úrskurðarnefndar, byggja upp innviði til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, til átaksverkefnis um friðlýsingar og til að stofna loftslagsráð. Einnig er veitt 90 milljón króna framlag til vöktunar á ám vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum.
- Að auki er gert ráð fyrir fjárheimildum til að standa vörð um hagsmuni Íslands vegna útgöngu Breta úr ESB og til að greiða sérfræðiaðstoð fyrir þingflokka, í samræmi við stefnu ríkisstjórnar um að efla Alþingi.