Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og segir augljóst á því, að Vinstri græn hafi „selt sig ódýrt“ í skiptum fyrir ráðherrastóla.
Í viðtali við Fréttablaðið í dag, segir Ágúst Ólafur að fjárlagafrumvarpið sé 98 prósent eins og frumvarp Benedikts Jóhannessonar, fyrrverandi fjármálaráðherra, sem Vinstri græn gagnrýndu harðlega.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, notaði orðið „sveltistefna“ um það frumvarp og fjármálaáætlunina sem Benedikt og ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar lagði fram. „Það er alveg ljóst að Vinstri græn hafa selt sig afskaplega ódýrt til að fá þrjá ráðherrastóla. Það er engin innspýting í innviði eins og Vinstri græn lofuðu,“ segir Ágúst Ólafur. „Þetta er 98 prósent eins og fjárlagafrumvarp síðustu ríkisstjórnar sem Vinstri græn gagnrýndu harðlega [...] Það eru engar tekjur af erlendum ferðamönnum, sjávarútvegurinn er áfram stikkfrí, það er ekki talað um auðlegðarskatt eins og Vinstri græn lögðu áherslu á. Auknar arðgreiðslur úr bönkunum sjást hvergi. Þannig að það er ekki bara að velferðarmálin og menntamálin fá lítið heldur eru tekjuleiðirnar ekki nýttar eins og ætti að gera á hátindi uppsveiflunnar. Þannig að þetta fjárlagafrumvarp er bara ein stór svik við kjósendur og fær algjöra falleinkunn.“
Samkvæmt frumvarpinu, sem Bjarni Benediktsson lagði fram í gær, er gert ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með 35 milljarða afgangi. Frumvarps Benedikts gerði ráð fyrir 44 milljarða afgangi.
Nýja ríkisstjórnin ætlar að eyða 15 milljörðum krónum meira en til stóð að eyða í fjárlagafrumvarpinu sem Benedikt Jóhannesson lagði fram í september.
Að hluta til koma þeir peningar til vegna þess að svigrúm til eyðslu er meira en áður var áætlað, vegna þess að tekjur ríkissjóðs verða sex milljörðum krónum hærri en talið var að þær yrðu í september. Alls eiga innheimtar tekjur að verða 840 milljarðar króna sem er það mesta sem ríkið hefur nokkru sinni haft í tekjur á einu ári.
Frumvarpið tekur að miklu leyti mið af því að staða efnahagsmála er traust um þessar mundir, eftir mikið hagvaxtarskeið undanfarin sex ár. Bjarni sagði þó í kynningu sinni á frumvarpinu að margt benti til þess að Ísland væri nú á toppi hagsveiflunnar og næstu árin yrði ekki jafn mikill hagvöxtur eins og verið hefur undanfarið. Engu að síður væri staðan sterk, atvinnuleysi lítið og viðvarandi afgangur af utanríkisverslun landsins. Þar vegur uppgangur ferðaþjónustunnar ekki síst þungt, en mikill afgangur hefur verið af þjónustuviðskiptum við útlönd, að mestu vegna ferðaþjónustunnar, en að sama skapi hefur verið halli á vöruviðskiptum.