Að óbreyttu fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar mun bilið á milli ríkra og fátækra í samfélaginu enn fara vaxandi. Þetta kemur fram í ályktun miðstjórnar ASÍ um fjárlagafrumvarið fyrir árið 2018 sem send var fjölmiðlum í dag.
Í rannsókn hagdeildar ASÍ á þróun skattbyrði launafólks síðastliðin 20 ár kemur fram að skattbyrði launafólks hafi aukist og þeim mun meira eftir því sem tekjurnar séu lægri. „Það eru því mikil vonbrigði að ekki sé brugðist við þessari þróun í fjárlagafrumvarpinu heldur þvert á móti haldið áfram á sömu braut með því að lækka útgjöld til barnabóta, vaxtabóta og húsnæðisbóta. Tekjuójöfnuður mun halda áfram að aukast þar sem dregið er enn frekar úr jöfnunarhlutverki skattkerfisins,“ segir í ályktuninni.
Segir enn fremur í ályktuninni að Alþýðusambandið hafi það að leiðarljósi að hefja samstarf við nýjar ríkisstjórnir á jákvæðum nótum. Þróun þess samstarfs mótist síðan af þeim áherslum og aðgerðum sem komið er í framkvæmd. „Þetta á að sjálfsögðu einnig við um þessa ríkisstjórn. Þannig styður ASÍ áform nýrrar ríkisstjórnar um eflingu menntakerfisins og opinbera heilbrigðiskerfisins, m.a. með auknum fjárveitingum og áherslubreytingum.“
Lestur fjárlagafrumvarps nýrrar ríkisstjórnar gefi hins vegar lítið tilefni til bjartsýni.
Því þrátt fyrir að aukin framlög til heilbrigðiskerfisins séu vissulega til bóta þá dugi þau með engu móti til að mæta þeirri miklu fjárþörf sem til staðar er. „Greiðsluþátttaka sjúklinga er allt of mikil og enn er gert ráð fyrir því að framlög til einkareksturs í heilbrigðiskerfinu aukist umtalsvert meira en til opinberu þjónustunnar.“
Jafnframt mótmælir ASÍ harðlega viljaleysi ríkisstjórnarinnar til að auka jöfnuð og endurreisa réttindi launafólks. Þetta birtist meðal annars í veikingu á barna- og vaxtabótakerfinu og virðingaleysi fyrir afkomutryggingu launafólks í atvinnuleysistryggingum, ábyrgðasjóði launa og fæðingarorlofi. Gríðarlegur húsnæðisvandi þeirra tekjulægstu sé ekki tekinn alvarlega og sá hluti menntakerfisins sem þjónar launafólki með litla formlega menntun er vanræktur. Þá sjáist engin merki um að efna eigi loforð um efling verk- og starfsnáms.
Miðstjórn ASÍ kallar eftir þeim áherslum í fjárlögum sem boðaðar eru í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar um samráð og samstarf við aðila vinnumarkaðarins um efnahagslegan og samfélagslegan stöðugleika. Ljóst megi vera að þetta fjárlagafrumvarp dugi ekki til þess að leggja grunn að slíku samstarfi. Miðstjórn lýsir jafnframt vonbrigðum sínum með að ríkisstjórnin ætli ekki að hafa neitt frumkvæði að bættum lífskjörum og auknu afkomuöryggi félagsmanna ASÍ.