Heildarútgjöld ríkissjóðs aukast um tæplega 25 milljarða króna á þessu ári miðað við fjárlög ársins, samkvæmt frumvarpi um fjáraukalög sem deilt hefur verið á Alþingi og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, mælir fyrir.
Heildarútgjöld ríkissjóðs samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga verða því 776,1 milljarðar króna í stað 751,3 milljarða í fjárlögum.
Rekstrarútgjöld ríkissjóðs aukast um tæpa 21,4 milljarða frá fjárlögum sem nemur 2,9 prósentum.
Mest aukast fjárframlög til velferðarmála og nemur hækkunin 8,4 milljörðum króna sem skýrist af umframútgjöldum sjúkratrygginga og almannatrygginga, einkum vegna sérfræðiþjónustu og hjúkrunar, lyfja og hjálpartækja. „Aukin útgjöld almannatrygginga stafa annars vegar af því að fjölgun öryrkja hefur verið meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og hins vegar af því að kostnaður vegna nýlegra lagabreytinga á almannatryggingakerfinu var vanáætlaður,“ segir í texta frumvarpsins.
Næst mest aukast vaxtagjöld og nemur hækkun þeirra um 8,1 milljörðum króna. Skýrist sú hækkun fyrst og fremst af framlögum vegna uppkaupa á skuldabréfum sem útgefin eru í Bandaríkjadölum og evrum en á móti vegur lækkun vaxtagjalda af innlendum og erlendum lánum.