Atkvæðagreiðslu um breytingatillögur á fjárlagafrumvarpi ársins 2018 lauk á tólfta tímanum í gærkvöldi og voru þær allar samþykktar. Þær gerðu ráð fyrir tveggja milljarða útgjaldaaukningu til viðbótar við það sem þegar hafði verið boðað, en meðal annars var samþykkt að auka við fjármögnun til heilbrigðisstofnanna á landsbyggðinni um 400 milljónir króna.
Einnig var samþykkt að hækka heimilisuppbót örorkulífeyrisþega og fjármögnun vegna endurbóta á Grindarvíkurvegi og veginum um Skriðdal.
Fjárlagafrumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, gerði ráð fyrir 35,1 milljarða afgangi en miðað við breytingartillögurnar þá verður afgangurinn 33,1 milljarður.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans þá er gert ráð fyrir að framlög til stjórnmálaflokka verði 362 milljónum hærri en gert var ráð fyrir í frumútgáfu fjárlaganna.
Formenn allra flokka á þingi nema Pírata og Flokks Fólksins styðja þessa tillögu. Verði hún endanlega samþykkt óbreytt fá stjórnmálaflokkar lands alls 648 milljónir króna úr ríkissjóði á næsta ári, og verða því með miklu sterkari fjárhagsstöðu heldur en þeir hafa nú, til að sinna flokksstarfi og stefnumálum sínum út á við.