Fyrirtækið Travelade hefur lokið 160 milljóna fjármögnun til að styðja við frekari vöxt félagsins. „Hópur nýrra fjárfesta sem kemur inn í félagið er leiddur af Crowberry Capital, fjárfestingasjóði sem stofnaður var á árinu,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
Í nýrri stjórn félagsins eru nú stofnendurnir, Andri Heiðar Kristinsson og Hlöðver Þór Árnason, auk Hjálmars Gíslasonar, fyrir hönd fjárfestingafélagsins Investa, og Heklu Arnardóttur frá Crowberry Capital.
Það er nýsköpunarsjóður sem fjárfestir í ungum tæknifyrirtækjum sem ætla að vaxa hratt á alþjóðamörkuðum. Sjóðurinn var formlega stofnaður í júlí 2017 og er stærð sjóðsins um fjórir milljarðar. Crowberry var stofnaður af Helgu Valfells, Heklu Arnardóttur og Jennýju Ruth Hrafnsdóttur, sem hafa starfað lengi við fjárfestingar í nýsköpun.
Travelade er upplýsinga- og bókunarvefur fyrir ferðamenn sem hefur vaxið ört frá því að fór í loftið síðastliðið sumar.
Yfir 200 þúsund ferðamenn hafa nýtt sér þjónustu Travelade sem gerir fólki kleyft að finna og bóka afþreyingu eftir sínum persónulega ferðasmekk. „Þjónustan er nú þegar opin fyrir ferðamenn á leið til Íslands og Bosníu en fleiri lönd munu bætast við á næstunni. Markhópurinn er hin svokallaða Airbnb kynslóð, þ.e. fólk sem skipuleggur ferðir sínar sjálft á netinu og notast ekki við ferðaskrifstofur eða kaupir tilbúnar pakkaferðir. Framundan er ár mikils vaxtar hjá fyrirtækinu sem stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki í ferðatækni á alþjóðlega vísu,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
„Markmið okkar er að gera það jafn auðvelt að finna afþreyingu fyrir draumaferðalagið og það er auðvelt að hlusta á tónlist á Spotify. Í dag er ekkert mál að bóka flug og gistingu á netinu, en kröfuharðir ferðalangar eiga erfitt með að finna einstakar upplifanir sem eru sérsniðnar að sínum ferðastíl. Svipað og þegar fólk byrjar að safna hugmyndum á Pinterest, þá auðveldum við hjá Travelade fólki að safna hugmyndum, hanna sitt draumaferðalag, og bóka alla afþreyingu á einum stað. Okkar ferðalag hófst á Íslandi en heimurinn er undir á næstu árum,” segir Andri Heiðar í tilkynningu.
Fyrirtækið leggur mikla áherslu á myndrænt viðmót. Fólk sem elskar að skipuleggja sitt ferðalag sjálft byrjar á Travelade þar sem það getur fundið mikinn fjölda hugmynda að afþreyingu, bæði í formi ókeypis ábendinga frá ferðabloggurum og afþreyingarferða sem hægt er að bóka. Á vefnum er hægt að bæta þessum hugmyndum inn á persónulega lista til að skipuleggja ferðina. Til að einfalda notendum að skipuleggja draumaferðina sína mun Travelade í auknum mæli nýtta þrívíddarmyndir í samstarfi við Iceland 360 VR og gervigreindartækni til að sérsníða persónulegar lausnir út frá ferðastíl hvers og eins, en sú tækni verður þróuð í samstarfi við gervigreindarsetur Háskólans í Reykjavík með stuðningi Tækniþróunarsjóðs,“ segir í tilkynningu.