Fimm munu bítast um að verða leiðtogar Sjálfstæðisflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum. Þetta staðfestir Gísli Kr. Björnsson formaður Varðar, félags sjálfstæðismanna í Reykjavík í samtali við Kjarnann. Borgarfulltrúarnir Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir tilkynntu um framboð í leiðtogakjörinu sem fram fer 27. janúar fyrir nokkru síðan. Á síðustu dögum hafa Eyþór Arnalds, einn aðaleiganda Morgunblaðsins og fjárfestir, og Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, bæst í hópinn.
Fimmti frambjóðandinn er Viðar Guðjohnsen eldri sem tilkynnti um framboð sitt stuttu áður en framboðsfrestur rann út nú klukkan 16 í dag.
Síðustu daga hafa margir sem orðaðir voru við framboð í leiðtogakjörinu gefið afsvar um framboð. Á meðal þeirra eru Ásdís Halla Bragadóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Garðabæ, Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis, Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Halla Tómasdóttir, sem bauð sig fram til forseta sumarið 2016, og Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar. Þá lá Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri hjá Isavia, undir feldi en hann gaf afsvar í byrjun viku.
Halldór Halldórsson, sem var oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórnarkosningunum 2014, tilkynnti um það í ágúst síðastliðnum að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram að nýju.
Leiðtogakjör Sjálfstæðismanna í Reykjavík fer fram hinn 27. janúar næstkomandi. Framboðsfrestur verður tvær vikur. Fyrirkomulagið verður á þann veg að kosið verður um oddvita listans en uppstillingarnefnd mun sjá um að raða í önnur sæti listans.
Sveitastjórnarkosningarnar fara svo fram 26. maí næstkomandi.
Ýmsir íhuguðu framboð
Þrír frambjóðendur sem höfðu alvarlega íhugað framboð, þau Björn Jón Bragason, Vala Pálsdóttir og Ólafur Arnarson, ákváðu í dag að gefa ekki kost á sér.
Í samtali við Kjarnann í dag sagði Björn Jón, sem er sagnfræðingur og rithöfundur, að hann muni ekki gefa kost á sér í leiðtogakjörinu en að hann hyggist sækjast eftir sæti á framboðslista flokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar.
Vala, sem er formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, birti yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni þar sem hún sagði að það hefði ekki hvarflað að sér að hún ætti jafn góðan og víðtækan stuðning í borgarmálinu og raun bar vitni, og það úr ólíkum áttum. „Ég hef hugsað málið mjög vel og hef tekið þá ákvörðun að bjóða mig ekki fram í leiðtogaprófkjörið. Ég er þó mjög þakklát fyrir alla þá hvatningu og stuðning sem ég hef fundið fyrir.“
Ólafur birti sömuleiðis yfirlýsingu á sama vettvangi. Þar segir Ólafur að fyrirfram hafi hann ekki haft nein áform um framboð, en að honum hafi borist áskoranir um að gera slíkt. „Ég hef hugsað það gaumgæfilega hvort nú sé rétti tíminn fyrir mig að bjóða mig fram til þessa verks. Þetta er mjög persónuleg ákvörðun. Svona ákvörðun snertir ekki bara þann sem veltir fyrir sér framboði heldur líka fjölskyldu hans. Svo er nauðsynlegt að horfa til yfirstandandi verkefna og skuldbindinga. Að lokum varð það mín niðurstaða að ég hef of margar skuldbindingar vegna verkefna sem ég hef tekið að mér til að geta á þessari stundu gefið kost á mér í það krefjandi verkefni að leiða lista sjálfstæðismanna í borginni.“