Í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs (ÍLS) kemur fram að vísbendingar séu um að leigumarkaður fari minnkandi samkvæmt nýrri spurningakönnun sem fjallað er um í skýrslu ÍLS.
Í skýrslunni kemur einnig fram að hlutfall þeirra viðskipta með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem eiga sér stað undir ásettu verði hefur aukist upp á síðkastið.
Í nóvember seldust 78 prósent íbúða á höfuðborgarsvæðinu undir ásettu verði, en jafn hátt hlutfall hefur ekki sést síðan í upphafi árs 2016.
Aukin ró virðist því vera að færast yfir fasteignamarkaðinn eftir mikla uppsveiflu á fyrri hluta síðasta árs, að því er segir í skýrslunni. Fasteignaverð hefur hækkað um tæplega 16 prósent á undanförnu ári, og hefur verð hækkað um 10 til 20 prósent á ári alveg frá árinu 2011.
Flestar spár gera ráð fyrir áframhaldandi hækkun fasteignaverðs, en þó mun verðið ekki hækka eins mikið á þessu ári og undanförnum árum. Samkvæmt spá Íslandsbanka verður hækkunin um 12 prósent á þessu ári, og töluvert minna á næstu tveimur árum þar á eftir.