Sjálfstæðisflokkurinn vill efla þátttöku kvenna í starfi flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor, og boðar í dag til stefnumóts í Valhöll þar sem kvennframbjóðendur flokksins munu stilla saman strengi og ræða um málefni sem brenna á flokki í fólknum.
Þá hefur sérstök bakvarðasveit kvenna í flokknum verið skipuð, til að vera kvennframbjóðendum til halds og trausts, og miðla af reynslu sinni.
Í pósti til flokkskvenna, sem Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna sendi, er meðal annars vikið að #MeToo byltingunni. Hún segir að sögurnar sem fram hafa komið séu aðeins toppurinn á ísjakinum, og ljóst sé að konur hafi fengið nóg. „Þegar hópur kvenna í stjórnmálum tók sig saman til að ræða kynferðislega áreitni, ofbeldi og niðurlægjandi viðhorf til kvenna innan stjórnmála á Íslandi óraði engan fyrir þeirri byltingu sem sú umræða hratt af stað. Þær konur sem stigu fram og sögðu sögu sína eru einungis brot af þeim veruleika sem blasir við, þvert á flokka og á öllum stigum stjórnmála. Það er ljóst að konur hafa fengið nóg,“ segir Vala í póstinum.
Vala segir að markmiðið með því að stilla saman strengi, sé ekki síst að að hvetja konur til þess að stíga inn á svið stjórnmálanna. Ekkert sé að óttast. „Við viljum fleiri raddir og viljum auðvelda konum fyrstu skrefin í að stíga fram á völlinn og bjóða sig fram. Við væntum þess að aðrir flokksmenn láti ekki sitt eftir liggja í hvatningu og stuðningi,“ segir Vala.