Eins og greint var frá í gær, þá hefur mælst fjölgun jarðvegsgerla í kalda vatninu í Reykjavík, og hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur mælst til þess að neysluvatn í nær öllum hverfum borgarinnar sé soðið ef fólk er viðkvæmt fyrir.
Til dæmis með lélegt ónæmiskerfi, ungabörn, aldraðir eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma.
Á Landspítalanum er mælst til þess að starfsfólk sjóði vatn áður en því er neytt. „Sýkingavarnadeild Landspítala beinir því til starfsfólks að sjóða allt neysluvatn fyrir jafnt sjúklinga sem starfsfólk þar til þessu neyðarástandi hefur verið aflétt. Einfaldasta leiðin er að nota hraðsuðukatla á öllum deildum, hella í vatnskönnur og kæla,“ segir í orðsendingu á vef Landspítalans. Þar segir enn fremur að Landspítala hafi ekki verið tilkynnt um málið. „Áríðandi tilkynningum verður komið jafnt og þétt á framfæri gegnum vefsvæði og samfélagsmiðla í samræmi við framvindu málsins,“ segir á vef Landspítalans.
Í fréttatilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðisins er tekið fram að jarðvegsgerlar séu í neysluvatni á Seltjarnarnesi, og að viðkvæmir verði að fara varlega. „Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis tók tvö sýni föstudaginn 12. janúar á Seltjarnarnesi og stóðst annað sýnið ekki viðmið í reglugerð um fjölda kuldakærra gerla svo kallaðra jarðvegsgerla. Þetta á ekki við í Mosfellsbæ, sem fær vatn frá öðrum svæðum í Heiðmörk þar sem ekki hefur mælst gerlafjöldi yfir viðmiðunarmörkum,“ segir í tilkynningunni.