Stjórnskipuð samstarfsnefnd um sóttvarnir hélt fund í dag um þá mengun sem mælst hefur í neysluvatni á ýmsum stöðum höfuðborgarinnar og á Seltjarnarnesi. Niðurstaða fundarins var sú að mælingar bendi ekki til þess að hætta sé talin á heilsufarslegum afleiðingum við neyslu vatnsins. Því telur samstarfsnefndin ekki þörf á að almenningur á svæðum þar sem mengunin mældist sjóði vatn fyrir neyslu og að ekki sé þörf á sérstökum varúðarráðstöfunum. Þá sé óhætt að nota neysluvatnið í matvæla- og drykkjarframleiðslu. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu embættis landlæknis.
Fundinn sátu fulltrúar sóttvarnalæknis, heilbrigðiseftirlita Reykjavíkur, Kjósarsvæðis, Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, sýkingavarna- og sýklafræðideildar Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Matvælastofnunar, MATÍS, Veitna OHF og Geislavarna ríkisins.
Gerlar höfðu mælst í neysluvatni á ýmsum stöðum höfuðborgarinnar og á Seltjarnarnesi nema Grafarvogi, Norðingaholti, Úlfarsárdal, Kjalarnesi og Mosfellsbæ. Engin mengun hafði hins vegar mælst í neysluvatni í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði.
Í fréttinni segir að ofangreind mengun hafi verið „einangrað fyrirbæri í kjölfar mikilla vatnavaxta sem leiddi til að gæði neysluvatns hefur nú í nokkra daga ekki staðist ýtrustu gæðakröfur. Niðurstöður mælinga á vatninu benda til að ekki er talin hætta á heilsufarslegum afleiðingum við neyslu þess á ofangreindum svæðum.“
Veitur og heilbrigðiseftirlitin á höfuðborgarsvæðinu munu áfram fylgjast með gæðum neysluvatns og mun birta niðurstöður mælinga á sínum vefsíðum. Samstarfsnefndin mun einnig áfram fylgjast náið með ofangreindri mengun og mun birta leiðbeiningar til almennings þegar tilefni gefst til.
Umræða tekin á borgarstjórnarfundi í dag
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir í stöðuuppfærslu á Facebook að í upphafi borgarstjórnarfundar í dag hafi hann óskað eftir umræðu um tilkynningu heilbrigðiseftirlitsins um jarðvegsgerla í vatni sem gefin var út í gærkvöldi. Þar hafi hann einnig gefið kost á að svara þeim spurningum sem borgarfulltrúar kynnu að hafa vegna málsins. „Mér fannst sérstaklega mikilvægt að koma á framfæri þeim upplýsingum sem komið hefðu fram frá því hún var gefin út. Þeirra hafði ég meðal annars aflað með góðum samtölum við heilbrigðiseftirlitið, Veitur og sóttvarnarlækni.
Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum vildi heilbrigðiseftirlitið með yfirlýsingu sinni í gær gæta ítrustu varúðar þótt ólíklegt væri að hætta stafaði af jarðvegsgerlum í vatni. Leiðbeiningarnar um að sjóða vatn sem viðkvæmir neyta er í samræmi við ákvæði reglugerðar þegar slík frávik sjást í mælingum. Það er svo hlutverk stjórnskipaðrar samstarfsnefndar um sóttvarnir sem hittist í morgun og er undir forystu sóttvarnarlæknis, að kveða upp úr um það hvort óhætt væri að neyta vatnsins fyrir alla. Niðurstaðan var afgerandi[...]Áfram verða þó tekin sýni og fylgst með.“
í upphafi borgarstjórnarfundar í dag óskaði ég eftir umræðu um tilkynningu heilbrigðiseftirlitsins um jarðvegsgerla í...
Posted by Dagur B. Eggertsson on Tuesday, January 16, 2018