Í Héraðsdómi Reykjavíkur, 22. desember sl., voru kveðnir upp tveir dómar í málum sem Matthías H. Johannesen hafði höfðað á hendur þeim Árna Harðarsyni og Magnúsi Jaroslav Magnússyni og félaginu Aztiq Pharma Partners.
Féllu báðir dómarnir, sem birtir voru á vef dómstólana, Matthíasi í vil, og voru stefnendur dæmdir til að greiða 800 þúsund krónur í málskostnað í báðum málunum.
Var það niðurstaða dómsins að annars vegar skyldi slíta umræddu félagi, Aztiq Pharma Partners, í takt við kröfu þar um, og hins vegar að tilteknar samþykktir aðalfundar félagsins frá því í október árið 2014 skyldu ógiltar.
Þar á meðal var samþykkt um að hækka hlutafé um 100 milljónir króna að nafnvirði á genginu ein króna á hlut og breyta samþykktum félagsins í samræmi við það.
Í dómunum er framganga ráðandi hluthafa í félaginu Aztiq Pharma Partners gagnvart Matthíasi, sem er þeirra fyrrverandi viðskiptafélagi, ekki sögð hafa verið í samræmi við lög.
Eru aðgerðir hluthafanna, sem fólu meðal annars í sér sölu á sænsku dótturfélagi, sem hélt með óbeinum hætti utan um 30 prósenta eignarhlut í lyfjafyrirtækinu Alvogen, á undirverði, sagðar hafa verið ámælisverðar og skaðað hagsmuni Matthíasar, öðrum hluthöfum til hagsbóta, án þess að hann hafi getað gert nokkuð í því. Róbert Wessman er forstjóri Alvogen og var hann í stjórn Aztiq Pharma ásamt fyrrnefndum Magnúsi og Árna.
Í dómunum kemur frama að sænska dótturfélagið hafi um mitt ár 2010 verið selt fyrir í mesta lagi 1,5 milljónir króna og gegn ógreiddri viðbótargreiðslu þó svo að verðmæti þess hafi numið nærri 1,7 milljörðum, samkvæmt mati dómskvaddra matsmanna.
Í dómi Héraðsdóms, í öðru málanna, segir meðal annars: „Dómurinn telur á hinn bóginn að atvik er varða eignasölu úr félaginu, hækkun hlutafjár og afnám allra ákvæða um forkaupsrétt í samþykktum félagsins hafi verið mjög ámælisverð og skaðað í krafti meirihlutavalds með ótilhlýðilegum hætti hagsmuni stefnanda öðrum hluthöfum til hagsbóta án þess að stefnandi fengi rönd við reist. Ekki getur verið ágreiningur um það að þessi brot voru eðli máls samkvæmt framin af ásetningi. Því verður talið að skilyrðum 1. mgr. 81. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög sé fullnægt þannig að skilyrði séu til að fallast á að slíta félaginu.“
Í viðtali við Markaðinn í dag, þar sem ítarlega er fjallað um málin, segir Árni Harðarson, að hann telji þessar niðurstöður ekki skipta máli í heildarsamhenginu. „Við höfum aldrei reynt að valda Matthíasi tjóni, hvorki fjárhagslegu né annars konar tjóni,“ segir Árni, sem er forsvarsmaður hins fyrrnefnda félags, Aztiq Pharma Partners. Hann segir enn fremur að dómarnir séu „stórundarlegir“ og að þeim verði áfrýjað til Hæstaréttar.
Í dómunum, sem Lárentínus Kristjánsson dómari kvað upp, er meðal annars fjallað um vernd minnihlutahluthafa. Orðrétt segir: „Með lögum nr. 68/2010 um m.a. breytingu á lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélögum var minnihlutavernd hluthafa aukin. Í athugasemdum með frumvarpinu var áréttuð sú meginregla að meirihluti hluthafa ráði málefnum í hlutafélögum en hins vegar yrði jafnframt að huga að rétti minnihluta hluthafa svo hagsmunir þeirri væru ekki skertir með óeðlilegum hætti í krafti meirihlutans. Síðan sagði m.a.: „Reglur um minnihlutavernd eiga rætur að rekja til siðferðislegra og hagfræðilegra raka. Í hlutafélagalögum er leitast við að tryggja ákveðin siðferðileg grunngildi á borð við jafnræði og sanngirni. Væru þau gildi ekki tryggð í lögum gætu sterkir hópar auðgast með óréttmætum hætti á kostnað hópa sem njóta veikari stöðu.“ Fyrir gildistöku laga nr. 68/2010 hljóðaði 70. gr. laga nr. 138/1994 svo: „Hluthafafundur má ekki taka ákvörðun sem bersýnilega er fallin til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.“ Í ljósi framangreinds um minnihlutavernd var ákvæðinu breytt með lögum nr. 68/2010 á þann veg að orðið „bersýnilega“ var fellt út. Ljóst er að með því var minnihlutavernd aukin og dregið úr kröfum í þessum efnum.“
Eins og að framan er greint, má reikna með að þessi mál fari inn á borð Hæstaréttar.
Lögmaður Matthíasar er Reimar Pétursson hrl. og lögmaður Aztiq Pharma Partners Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.