Eyþór Arnalds, sem sækist eftir leiðtogahlutverki fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík, segir í grein í Fréttablaðinu í dag, að þétting byggðar í Reykjavík hafi mistekist. Hann segir margvísleg tækifæri vera fyrir hendi, þegar kemur að því að byggja upp íbúabyggð þar sem í dag sé engin byggð.
Nefnir hann Örfirisey sem dæmi, og segir þar vera hægt að vera með 10 til 15 þúsund manna byggð. „Margir vilja búa í miðborginni en er það ókleift þar sem íbúðaverð er í hæstu hæðum. Ungt fólk sem vill búa nálægt háskólanum hefur fáa kosti. Þétting byggðar tókst á margan hátt vel þegar farið var í að leyfa íbúðabyggð í Skuggahverfi sem áður var með atvinnustarfsemi. Á sama hátt væri hægt að leyfa háhýsi í Örfirisey svo dæmi sé tekið en þar eru núna olíutankar. Grandinn er nú þegar með margs konar hverfisverslun og þjónustu en þar er ekki ein einasta skipulögð íbúð enda er svæðið skipulagt atvinnu- og hafnarsvæði,“ segir Eyþór.
Hann segir að uppbyggingin í Örfirisey geti einnig létt á ójafnvægi í umferð og verið valkostur fyrir fólk sem vill búa miðsvæðis. „Samhliða þarf að ráðast í að leysa umferðarvandann með raunsæjum lausnum. Ein leið til að létta á umferð er að tengja Reykjavík við Garðabæ með Skerjabraut. Slík slagæð myndi létta á umferð innan Reykjavíkur og umferð til og frá borginni. Þessi viðbót myndi létta á umferð um alla borg en þeir sem búa í austurborginni þurfa að þola eilífar umferðartafir sem ekki eru boðlegar í 120 þúsund manna borg,“ segir Eyþór.