Ríkisstjórnin hefur, að höfðu samráði við heildarsamtök á vinnumarkaði, ákveðið að skipa starfshóp um kjararáð. Starfshópurinn skal ljúka störfum eigi síðar en 10. febrúar næstkomandi.
Samkvæmt tilkynningu á hópurinn að bera saman „fyrirkomulag um ákvörðun launa hjá kjörnum fulltrúum, dómurum og embættismönnum í nágrannalöndum og leggja fram tillögur að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana kjararáðs, sé annað fyrirkomulag talið líklegra til betri sáttar í þjóðfélaginu til framtíðar um ákvörðun launa þeirra sem stöðu sinnar vegna njóta ekki samningsréttar.“
Auk þess á starfshópurinn að taka til skoðunar úrskurði kjararáðs, meta með hliðsjón af launasetningu og launabreytingum þeirra stétta sem samningsfrelsis njóta og þeirri launastefnu sem samið var um við meginþorra launafólks og eftir atvikum leggja fram tillögur um úrbætur.
Formaður hópsins er Jóhannes Karl Sveinsson. Auk hans sitja í hópnum fyrir hönd ríkisins Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneyti og Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu.
Fyrir hönd aðila vinnumarkaðarins sitja þau Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Helga Jónsdóttir framkvæmdastjóri BSRB og Magnús Norðdahl lögfræðingur ASÍ.
Laun ráðamanna, þingmanna og biskups hækkuðu um tugi prósenta
Mikið launaskrið er hjá hinu opinbera og hafa laun einstakra hópa hækkað allt að 34% frá 2014. Laun rúmlega 400 einstaklinga sem heyra undir kjararáð hafi hækkað um 31% frá því árið 2014. Undir kjararáð heyra æðstu stjórnendur hjá ríkinu og dótturfyrirtækjum.
Mesta athygli hafa vakið ákvörðun kjararáðs frá því í október 2016, þegar ráðið ákvað að hækka laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra..
Samkvæmt úrskurði kjararáðs urðu laun forseta Íslands 2.985.000 krónur á mánuði, þingfararkaup alþingismanna 1.101.194 krónur á mánuði, laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi varð 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi urðu 1.826.273 krónur á mánuði. Laun forsætisráðherra voru áður tæplega 1,5 milljónir en laun forseta voru tæpar 2,5 milljónir.
Laun þingmanna hækkuðu hlutfallslega mest við ákvörðun Kjararáðs, eða um 44,3 prósent.
Í desember hækkaði kjararáð svo laun biskups, Agnesar Sigurðardóttur, um tugi prósenta. Í úrskurði vegna þessa kom fram að biskup skuli hafa tæplega 1,2 milljónir í mánaðarlaun auk 40 fastra yfirvinnueininga. Ein eining er 9.572 krónur og laun biskups því eftir hækkun alls 1.553.359 krónur á mánuði.
Hækkunin var afturvirk til 1. janúar 2017, samkvæmt úrskurðinum. Um áramót fékk biskup því eingreiðslu fyrir síðasta árið en sú upphæð nemur 3,3 milljónir króna.