Forsætisráðherra hefur birt minnisblað, þar sem línurnar eru lagðar fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar og rammi um feril málsins er markaður.
Gert er ráð fyrir að núgildandi stjórnarskrá verði endurskoðuð í heild á þessu og næsta kjörtímabili. „Markmiðið er að þegar þessari heildstæðu yfirferð er lokið endurspegli íslenska stjórnarskráin sem best sameiginleg grunngildi þjóðarinnar og renni traustum stoðum undir lýðræðislegt réttarríki þar sem vernd mannréttinda er tryggð,“ segir í minnisblaðinu.
Þá er gert ráð fyrir að allir flokkar hafi aðkomu að vinnunni, sem verði áfangaskipt. Þá kemur einnig fram að til hliðsjónar verði vinna sem unnin hefur verið á undanförnum árum, þegar kemur að endurskoðun stjórnarskrárinnar. „Hliðsjón verður höfð af þeirri miklu vinnu sem lögð hefur verið í endurskoðun á undanförnum árum, sbr. t.d. þjóðfund, stjórnlaganefnd og stjórnlagaráð auk starfa stjórnarskrárnefnda 2005-2007 og 2013-2016, þeirri miklu samfélagslegu umræðu sem átt hefur sér stað, umræðu og nefndavinnu á Alþingi auk afstöðu kjósenda að því marki sem hún hefur þegar komið fram. Sú áætlun sem hér er lögð fram er metnaðarfull og felur í sér skuldbindingu um heildarendurskoðun á afmörkuðu tímabili. Ekki er fyrirfram gefið hvaða málefni eru þess eðlis að þörf sé talin á breytingum eða að samstaða náist um þær. Áætlunin mun sæta reglulegri endurskoðun varðandi til dæmis röð viðfangsefna, tilhögun vinnu og tímafresti,“ segir í minnisblaðinu.
Þá er einnig get ráð fyrir ítarlegri yfirferð á hverjum kafla stjórnarskrárinnar, og að kerfisbundið verði farið í gegnum þá eftir þeim tímaramma sem markaður verður, það er á þessu kjörtímabili og því næsta.
Sjá má minnisblaðið í heild sinni hér.