Magnús Már Guðmundsson, formaður borgarstjórnarflokks Samfylkingarinnar, býður sig fram í 4. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík sem fram fer 9.-10. febrúar næstkomandi.
Í tilkynningu segir Magnús að hann hafi verið „kjörinn varaborgarfulltrúi í borgarstjórnarkosningunum 2014 og hafa verkefnin á kjörtímabilinu verið fjölbreytt en umfram allt skemmtileg. Í um eitt og hálft ár sinnti ég störfum borgarfulltrúa en þar fyrir utan hef ég setið í velferðarráði, mannréttindaráði, forsætisnefnd og gegnt formennsku í borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar sem og í ferlinefnd borgarinnar. Að auki hef ég tekið þátt í störfum stýrihópa, þar á meðal um stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara og gerð aðgengisstefnu fyrir borgina, en ég hef leitt þá vinnu.“
Áður hafði Sabine Leskopf varaborgarfulltrúi gefið það út að hún bjóði sig fram í 3.-4. sæti í prófkjörinu. Hún hefur verið varaborgarfulltrúi frá árinu 2014, setið fyrir hönd Samfylkingarinnar í skóla- og frístundaráði og mannréttindaráði, verið formaður heilbrigðisnefndar og varamaður í innkauparáði.