Bandaríkjadalur kostar nú um 100 krónur og evra 125 krónur. Gengi evru gagnvart Bandaríkjadal hefur verið að hækka töluvert að undanförnu, og er nú 1,25 Bandaríkjadalur, en það er í fyrsta skipta í þrjú ár sem þú staða er uppi, samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal.
Íslenska krónan hefur styrkst töluvert gagnvart Bandaríkjadal að undanförnu, en fyrir þremur mánuðum kostaði Bandaríkjadalur 107 krónur.
Í umfjöllun Wall Street Journal segir að meðal ástæðna fyrir hækkandi gengi evru gagnvart Bandaríkjadal séu þær, að markaðurinn meti stöðu mála með þeim hætti að hagvaxtarhorfur séu góðar í Evrópu og að eftirspurn - og þar með verðbólga - muni fara hækkandi.
Mario Draghi, forseti bankastjórnar Seðlabanka Evrópu, lét meðal annars hafa eftir sér, að horfur í Evrópu væru góðar, og þá gagnrýndi hann tal um „gjaldmiðlastríð“ og að veikur Bandaríkjadalur gagnvart evru væri góður fyrir Bandaríkin, til lengdar, eins og hluti af starfsliði Donalds Trumps hefur sagt. Horfa þyrfti til heildarmyndarinnar, og tala varlega í þessum efnum.