Eignarhaldsfélagið Kaupþing, sem er að mestu í eigu erlendra vogunarsjóða, hefur uppi áform um að kaupa þrettán prósenta hlut ríkisins í Arion banka, og selja hlutinn síðan áfram á hærra verði til annarra fjárfesta.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag, og er greint frá því að þessi áform byggist á kaupréttaákvæði í hluthafasamkomulagi frá árinu 2009.
Þessi viðskipti eru sögð vera til skoðunar í fjármálaráðuneyti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.
Kaupþing hefur þó ekki tilkynnt ráðuneytinu um að það hyggist nýta kaupréttinn, né heldur Bankasýslu ríkisins, sem heldur á hlutnum fyrir hönd ríkisins, að því er fram kemur í Fréttablaðinu.
Kaupþing á 57 prósenta hlut í Arion banka, í gegnum Kaupskil. Vogunarsjóðir eiga svo beint um 30 prósent og íslenska ríkið 13 prósent hlut.
Bókfært virði þessa 13 prósenta hlutar miðað við núverandi eigið fé Arion banka er tæplega 29 milljarðar, og virði Arion banka því 223 milljarðar króna.
Ekki er vitað á hvaða verði Kaupþing getur nýtt sér kaupréttinn að hlut ríkisins í bankanum en í hluthafasamkomulaginu, sem var gert opinbert í ársbyrjun 2012, hafa þær upplýsingar verið felldar út, að því er segir í Fréttablaðinu. „Áform Kaupþings um að nýta sér kaupréttinn helgast af því að félagið hefur væntingar um að það geti selt hlutinn áfram innan ekki of langs tíma – og á hærra verði – til annarra fjárfesta. Kaupþing hefur nú þegar boðið íslenskum lífeyrissjóðum, eins og greint var frá í Markaðnum í gær, að kaupa að lágmarki fimm prósenta hlut í bankanum,“ segir í Fréttablaðinu.