Samkvæmt siðareglum ráðherra hefur forsætisráðuneytið ráðgefandi hlutverk gagnvart ráðherrum um túlkun þeirra. Það er hins vegar ekki hlutverk forsætisráðuneytisins að kveða upp úrskurði um það hvort siðareglur hafa verið brotnar í einstökum tilvikum.
Þetta kemur fram í svari Katrínar Jakobsdóttur við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar, þingmanni Pírata, í gærkvöldi.
Spurningin var sú hvort Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, hafi brotið siðareglur með töfum á birtingu skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum. Í byrjun janúar 2017 var skýrsla starfshóps sem skoðaði umfang aflandseigna Íslendinga birt og áætlaði hversu miklu eigendur slíkra eigna hefðu stungið undan skatti.
Skýrslan kynnt 3 mánuðum fyrir birtingu
Skýrslan var unnin sem viðbragð við opinberun Panamaskjalanna svokölluðu. Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, greindi frá því í maí 2016 að sérstöku teymi, með aðkomu utanaðkomandi sérfræðinga, yrði falið að „gera mat á umfangi fjármagnstilfærslna og undanskota á aflandssvæðum samhliða því að áætla tekjutap hins opinbera af slíkri starfsemi.[...]Við höfum skyldur til þess að draga fram og skýra hvert umfang skattsvikanna var. Hvert er umfang vandans? Hversu mikið tapast? Hversu algengt var að þetta félagaform, þessi lönd, þessi svæði, væru nýtt til þess að skjóta sér undan íslenskum lögum? Það finnst mér sjálfsagt og eðlilegt að kanna. Mér finnst það frumskylda okkar að gefnu þessu tilefni núna að taka það út sérstaklega og verður það meginverkefni þessa sérstaka teymis sem ég hyggst fela þetta hlutverk þannig að við getum haft betri grundvöll undir umræðu um umfang vandans.“
Þessi hópur starfaði frá vorinu 2016 undir formennsku Sigurðar Ingólfssonar hagfræðings. Og hann skilaði skýrslu til fjármála- og efnahagsráðuneytisins í september sama ár, rúmum mánuði fyrir kosningarnar sem haldnar voru fyrr en áætlað var vegna aflandsfélagaopinberanna Panamaskjalanna.
Skýrslan var kynnt fyrir Bjarna Benediktssyni, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, í byrjun október sama ár. Skýrslan var hins vegar ekki birt fyrr en 6. janúar, eftir að Kjarninn hafði ítrekað spurst fyrir um afdrif hennar.
Braut Bjarni siðareglur?
Svandís Svavarsdóttir, þáverandi þingflokksformaður Vinstri grænna og núverandi heilbrigðisráðherra, óskaði eftir því skriflega að umboðsmaður Alþingis myndi fjalla um hvort Bjarni hefði brotið gegn 6. grein c siðareglna ráðherra með því að birta ekki skýrslu um aflandsfélög fyrr en nokkrum vikum eftir að hún lá fyrir.
Umboðsmaður tilkynnti síðar um að ekki væri tilefni til að taka til athugunar hvort Bjarni hefði brotið gegn siðareglum ráðherra með því að birta ekki skýrslu um eignir Íslendinga í aflandsfélögum fyrr en raun bar vitni. Ástæðan var fyrst og fremst að Bjarni hafði viðurkennt að það hafi verið mistök af hans hálfu að birta ekki skýrsluna mun fyrr en gert var.
Endurskoðun siðareglna á döfinni
Ríkisstjórnin fjallaði á fundi í byrjun desember síðastliðins um siðareglur ráðherra. Þar var samþykkt endurskoðun siðareglna ráðherra og stóð til að skipa starfshóp sem fer með endurskoðun á siðareglunum. Kom fram í tilkynningu frá ríkisstjórninni að markmiðið með endurskoðun reglnanna væri að skerpa á hagsmunaskráningu ráðherra með það í huga að skýr aðskilnaður verði milli almanna- og sérhagsmuna, auk þess sem skerpt verði á því hvernig megi innleiða „heilindi“ í starfi hjá hinu opinbera, í víðara samhengi.
Nú eru í gildi siðareglur ráðherra nr. 190/2017 og hafa þær ekki tekið miklum efnislegum breytingum frá því þær voru fyrst gefnar út vorið 2011, að því er sagði í tilkynningunni.
Ákveðið var á fundinum að forsætisráðherra myndi kalla til utanaðkomandi sérfræðinga til ráðgjafar „ekki einungis varðandi siðareglur ráðherra heldur einnig varðandi heilindi í opinberum störfum í víðara samhengi.“
Ráðgert var að setja á fót starfshóp sem mun ráðleggja og aðstoða við að ná fram eftirfarandi þáttum úr stjórnarsáttmála: „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Einn þáttur í því er að yfirfara reglur um hagsmunaskráningu bæði ráðherra og þingmanna með hliðsjón af ábendingum og alþjóðlegum viðmiðum. Annar þáttur er breytingar á lögum sem varða vernd uppljóstrara og umbætur í umhverfi stjórnsýslu og viðskipta, meðal annars í takt við ábendingar alþjóðastofnana.“