Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins útilokar ekki að sækjast eftir sæti á lista flokksins fyrir kosningarnar í vor. Kjartan hlaut 460 atkvæði í leiðtogaprófkjöri í gær sem gerir alls 11,8 prósent af greiddum atkvæðum, en Eyþór Arnalds, fyrrverandi oddviti flokksins á Selfossi og varaborgarfulltrúi, sigraði með afgerandi hætti og hlaut 3.826 atkvæði eða 61 prósent.
Í samtali við Kjarnann segir Kjartan að nú muni kjörnefnd taka við og stilla upp á listann og framhaldið verði bara að koma í ljós.
„Það getur vel verið að ég taki sæti á lista. Ég mun bara sjá hvernig þetta verður unnið, það er kannski svolítið snemma að ákveða þetta. Þetta er bara á forræði kjörnefndar og ég mun bara hlusta á hvað hún hefur að segja.“
Kjartan segir Eyþór hafa fengið glæsilega kosningu og óskar honum innilega til hamingju með það. En í kosningunni í gær hafi að aðeins verið kosið um efsta sæti á lista. „Ef það hefði verið kosið í venjulegu prófkjöri þá held ég að maður hefði fengið góðan stuðning í annað sæti á lista en það er held ég bara of snemmt að segja hvað verður,“ segir Kjartan.
Ásamt þeim Kjartani og Eyþóri voru þau Áslaug Friðriksdóttir borgarfulltrúi, Vilhjálmur Bjarnason fyrrverandi Alþingismaður og Viðar Guðjohnsen leigusali í framboði.
Vilhjálmur segist ekki munu sækjast eftir sæti á lista flokksins í borgarstjórnarkosningunum.
„Ég ætla ekki að sækjast eftir sæti á listanum. Ég er fluttur til baka í Garðabæ. Ég bauð mig fram til forystu til að taka leiðtogasæti og ég hugsaði nú með mér: „er þetta rétta fólkið sem er í framboði?“ En þetta er bara niðurstaðan og ég er alveg sáttur við hana,“ sagði Vilhjálmur í samtali við Kjarnann. Vilhjálmur fékk 193 atkvæði eða 4,9 prósent.
Viðar Guðjohnsen ætlar ekki heldur að sækjast eftir sæti á lista. Hann segist hafa farið í framboð til að vekja athygli á vissum málefnum í pólitíkinni. Viðar fékk 65 atkvæði sem gerir 1,6 prósent.
„Þannig að þetta framboð mitt það tókst að því leiti að fjölmiðlar sögðu allavega frá alls konar vinklum á pólitík sem að mér finnst vera í miklum doða. Ég er ekki að leita eftir öðru starfi, en mér finnst pólitíkin í Reykjavík og ekki síður á landsvísu og þá sérstaklega hvernig fjölmiðlar hafa hagða sér komna út í vitleysu. En það tókst að vekja athygli á þessu og ég er fullkomlega sáttur og held að Sjálfstæðiflokknum muni vegna mjög vel með Eyþóri Arnalds,“ sagði Viðar.
Áslaug Friðriksdóttir fékk rúm 20 prósent atkvæða í leiðtogakjörinu, eða 788 í sinn hlut. Hún þakkaði stuðningsmönnum sínum fyrir stuðninginn í stöðuuppfærslu sem hún setti á Facebook í dag. „Þetta var snörp og góð barátta sem ég er stolt af. Úrslit eru ljós og Eyþór Arnalds er sigurvegari prófkjörsins, ég óska honum til hamingju með það. Næsta verkefni er að stilla upp sigurstranglegum lista og sú vinna í höndum kjörnefndar,“ segir Áslaug.
Elsku vinir mínir ég þakka ykkur fyrir allan stuðningin og fallegu skilaboðin❤️❤️❤️. Þetta var snörp og góð barátta sem ...
Posted by Áslaug Friðriksdóttir on Sunday, January 28, 2018