Almennt er húsnæðisverð að hækka meira í öðrum hverfum en í miðborg Reykjavíkur, og því hefur dregið nokkuð saman með hverfum. Þetta kemur fram í skýrslu Arion banka um húsnæðismarkaðinn.
Í skýrslunni segir að almennt séu horfur nokkuð góðar á fasteignamarkaði, og því er spáð að fasteignaverð muni halda áfram að hækka á þessu ári, en þó ekki eins mikið og undanfarin ár. Viðverandi skortur er þó á húsnæði, og mikill uppbyggingartími framundan.
Íbúðafjöldi á landinu jókst um 1700 íbúðir á síðasta ári og aukið framboð er í farvatninu. Byggja þarf hátt í níu þúsund íbúðir á landinu öllu fram til ársloka 2020, ef markmiðið er að vinna á skortinum sem myndast hefur og til að framboð haldi í við fólksfjölgun. „Samkvæmt okkar spá er ólíklegt að sá fjöldi náist,“ segir í skýrslunni.
Samkvæmt spá Arion banka mun fasteignaverð hækka um 6,6 prósent á þessu ári, 4,4 prósent á því næsta og síðan um 2 prósent árið 2020.
Spá Arion banka gerir meðal annars ráð fyrir að laun muni hækka umfram húsnæðisverðþróun, ólíkt því sem hefur verið raunin undanfarin misseri. Að því leytinu til verði ákveðin leiðrétting á gangverki markaðarins.