Svefn og hreyfing eru mikilvægir áhrifaþættir heilsufars. Regluleg hreyfing á unglingsárum minnkar líkur á áunnum og langvinnum lífsstílssjúkdómum síðar á ævinni. Um helmingur þátttakenda í rannsókn á svefni og hreyfingu unglinga náði viðmiðum um hreyfingu samkvæmt niðurstöðum spurningalista. Þrátt fyrir að 51,9 prósent teldu sig sofa nógu mikið náðu þó einungis 22,9 prósent viðmiðum um ráðlagða svefnlengd.
Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem greint var frá í Læknablaðinu á dögunum.
Í umfjölluninni segir að alþjóðlegar ráðleggingar mæli með því að börn og unglingar hreyfi sig að lágmarki 60 mínútur daglega af miðlungs eða mikilli ákefð og sofi í 8 til 10 klukkustundir á sólarhring. Enn fremur segir að tengsl hreyfingar og svefns meðal ungmenna séu ekki vel þekkt.
Engin tengsl milli svefnlengdar og hreyfingar
Markmið rannsóknarinnar voru í fyrsta lagi að meta hversu hátt hlutfall 16 ára reykvískra ungmenna uppfyllir viðmið um hreyfingu og svefn, í öðru lagi hvort tengsl séu milli hreyfingar og svefns og í þriðja lagi að kanna kynjamun á hreyfingu og svefni.
Alls var 411 nemendum 10. bekkjar 6 grunnskóla í Reykjavík boðin þátttaka í rannsókninni vorið 2015. Gild gögn fengust frá 106 drengjum og 160 stúlkum.
Í niðurstöðunum kemur fram að engin tengsl hafi fundist milli svefnlengdar og hreyfingar samkvæmt spurningalistum. Stúlkur hreyfðu sig marktækt meira en drengir á frídögum samkvæmt hröðunarmælum en ekki var marktækur munur á meðaltali hreyfingar stúlkna og drengja yfir vikuna. Hvorki var marktækur kynjamunur á svefnlengd mældri með hröðunarmælum né spurningalista.
Hreyfing og nægur svefn hefur góðar afleiðingar
Samkvæmt hlutlægum mælingum árið 2013 uppfylltu aðeins 9 prósent 15 ára íslenskra unglinga viðmið um daglega hreyfingu, en drengir hreyfðu sig meira en stúlkur af miðlungs- eða mikilli ákefð. Æskilegt er talið að ungmenni sofi í 8 til 10 klukkutíma á sólarhring. Ríflega helmingur bandarískra ungmenna er talinn leggja sig á daginn vegna syfju, segir í umfjöllun Læknablaðsins.
Þar kemur enn fremur fram að aukin hreyfing sé talin tengjast eða leiða til betri svefns. Rannsóknum á unglingum beri saman um að hreyfing hafi jákvæð áhrif á svefnlengd þeirra. Einnig hafi komið fram að börn á aldrinum 10 til 12 ára sem fylgja svefnráðleggingum séu líklegri til að viðhalda reglulegum og heilbrigðum hreyfivenjum. Nýleg samantektargrein hafi ályktað að börn og unglingar sem hreyfa sig mikið, sofa vel og eru í lítilli kyrrsetu hafi ákjósanlegra magn líkamsfitu og séu í betra formi en þau ungmenni sem eru í meiri kyrrsetu, hreyfa sig lítið og sofa minna.