Við opnun markaða í Asíu í nótt lækkaði verð á hlutabréfum hratt. Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um tæplega 4 prósent og í kauphöllinni í Shanghai lækkuðu hlutabréf um 5 prósent.
Þetta teljast miklar lækkanir innan dags. Á einni viku hafa hlutabréf í Bandaríkjunum lækkað um tæplega 10 prósent, en skörp lækkun varð á mörkuðum í gær, líkt og varð í byrjun vikunnar.
Fastlega er búist við því, að markaðir geti haldið áfram að sveiflast töluvert á næstu misserum.
Á vef Wall Street Journal og BBC kemur fram að fjárfestar hafi brugðist hratt við yfirlýsingum Englandsbanka (Bank Of England) þess efnis að vextir yrðu hugsanlega hækkaðir hraðar en áður hafði verið búist við, og að verðbólga kunni að vaxa á næstunni.
Asian stocks drop amid US market volatility https://t.co/nWxYov5049
— Sky News (@SkyNews) February 9, 2018
Þessar sveiflur nú ættu ekki að koma mörgum á óvart, í ljósi mikils uppgangs á hlutabréfamörkuðum á undanförnum árum. Ekki aðeins á undanförnu ári, heldur í reynd allt frá því að viðspyrnan hófst á fjármálamörkuðum eftir hrunið 2007 til 2009.
Aðgerðir seðlabanka, ekki síst í Bandaríkjunum, Bretlandi og Evrópu, hafa haft víðtæk áhrif á gang efnahagsmála og þróun á verðbréfamörkuðum.
Flestir eru þó sammála um að undirliggjandi staðan í heimbúskapnum sé betri nú en oft áður. Eftirspurn hefur vaxið mikið, atvinnuleysi minnkað hratt og framtíðarhorfur, í Evrópu og í Bandaríkjunum, eru taldar með ágætum. Atvinnuleysi mælist nú 4,7 prósent í Bandaríkjunum, sem er með allra lægsta móti, og í Evrópu hefur það lækkað hratt, og er nú um 8,5 prósent að meðaltali meðal Evrópusambandsríkja.