Leigufélagið Heimavellir, sem er á leið á skráðan markað mánaðarmótin mars/apríl, var með eignir upp á 53,6 milljarða í lok árs í fyrra og var aukningin milli ára 12,9 milljarðar króna. Rekstrarhagnaður nam 2,7 milljörðum en var 2,2 milljarðar árið 2016.
Leigutekjur á árinu 2017 voru rúmlega þrír milljarðar, sem er tvöföldun frá árinu 2016. Matsbreyting á virði eigna, meðal annars vegna hækkandi fasteignamats, nam 3,8 milljörðum króna, samkvæmt tilkynningu frá félaginu.
Í árslok í fyrra átti félagið rúmlega tvö þúsund íbúðir, en það hefur tryggt sér kaup á 340 nýjum íbúðum á þessu ári.
Vaxtaberandi skuldir félagsins eru tæplega 35 milljarðar króna og eigið fé þess 17,6 milljarðar. Eiginfjárhlutfallið er 31,4 prósent.
Guðbrandur Sigurðsson, forstjóri Heimavalla, segir í tilkynningu að fjárhagur félagsins sé sterkur. „Ég er sáttur við rekstrarniðurstöðu félagsins á árinu 2017. Félagið hefur vaxið hratt og tekið yfir stór og krefjandi leigusöfn sem hefur gengið vel að samþætta annarri starfsemi félagsins. Reksturinn styrktist verulega á síðasta ári sem sést best á því að mánaðarleg velta hækkaði úr 230 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2017 í 290 milljónir króna á síðasta ársfjórðungi ársins. Þessi veltuaukning skilaði sér í bættum rekstri og afkomu. Við teljum okkur í góðri stöðu fyrir fyrirhugaða skráningu félagsins í Kauphöll. Við horfum bjartsýn fram á veginn. Það er mikilvægt að geta boðið nýjar lausnir og valkosti eins og staðan er á húsnæðismarkaði í dag. Við erum markvisst að byggja upp leigumarkað þar sem fólk getur reitt sig á örugga langtímaleigu eins og þekkist í nágrannalöndum okkar. Þannig viljum við stuðla að fjölbreyttari og stöðugri húsnæðismarkaði á Íslandi. Áherslur félagsins verða þar sem þörfin er mest, þar á meðal íbúðir fyrir eldri borgara, en við erum einnig að skoða leiðir til að koma á markað litlum hagkvæmum leiguíbúðum sem mikil þörf er fyrir um þessar mundir,“ segir Guðbrandur.
Hluti af þeim 340 íbúðum sem koma til afhendingar hjá Heimavöllum á þessu og næsta ári eru sérhannaðar fyrir eldri borgara, segir í tilkynningunni. „Þetta er nýjung hjá Heimavöllum til að bregðast við þörf á fjölbreyttari úrræðum í húsnæðismálum fyrir þennan aldurshóp,“ segir í tilkynningunni.
Annars vegar er um að ræða 58 íbúðir í tveimur fjölbýlishúsum við Boðaþing í Kópavogi, í nágrenni við þjónustu fyrir eldri borgara á vegum Hrafnistu og Kópavogsbæjar. Hins vegar er um að ræða átján íbúða fjölbýlishús fyrir eldri borgara við Jaðarleiti, á nýjum byggingarreit sunnan við Útvarpshúsið í Efstaleiti.
Þá hafa Heimavellir fjárfest í 164 íbúðum í nýju hverfi við Hlíðarenda og kemur félagið þar til móts við stóran hóp fólks sem hefur áhuga á að komast í öruggt leiguhúsnæði miðsvæðis í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að íbúðirnar verði tilbúnar til afhendingar á árinu 2019. Alls verða um sex hundruð íbúðir á svæðinu og er markmið skipulagsins „að skapa hverfi með borgarbrag, með fjölbreytni í húsagerð, stórum sameiginlegum inngörðum og iðandi mannlífi,“ að því er segir í tilkynningu.
Einnig eru að koma til afhendingar 47 íbúðir við Einivelli í Hafnarfirði. Um er að ræða góðar fjölskylduíbúðir í barnvænu og vinsælu hverfi. Þá verður framhald á verkefni sem hófst í fyrra að breyta setustofum í fasteignum Heimavalla á Ásbrú í stúdíóíbúðir. Í fyrra var 51 íbúð standsett en gert er ráð fyrir að þetta verkefni muni skila félaginu 36 nýjum stúdíóíbúðum til viðbótar næsta sumar.