Ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins hefur haft söluferlið á Arion banka til umræðu, samkvæmt heimildum Kjarnans, og fylgst náið með framvindu þess. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, eiga sæti í nefndinni.
Samkvæmt heimildum Kjarnans ætla Kaupskil, félag í eigu Kaupþings þar sem vogunarsjóðir eru stærstu hluthafar, að nýta sér kauprétt á hlut íslenska ríkisins í Arion banka, sem byggir á samkomulagi frá árinu 2009. Líklegt er að þetta verði ákveðið á næstunni, jafnvel á fundi nú í kvöld.
Gangi þessi áform eftir mun ríkið fá 23 milljarða fyrir 13 prósent hlut sinn í bankanum. Stjórnvöld hafa látið kanna ítarlega, hvernig réttarstaða ríkisins er í málinu, samkvæmt heimildum Kjarnans, og er það metið sem svo, að forkaupsrétturinn sé í gildi og þá miðað við fyrrnefndar verðforsendur.
Er það mat stjórnvalda í málinu, að þetta sé besti kosturinn fyrir ríkið, það er að fara úr hluthafahópnum á þessum tímapunkti og koma fjárhagslega vel frá eignarhaldi á bankanum í stað þess að vera áhrifalítill hluthafi í minnihluta þegar fram í sækir.
Eins og greint hefur verið frá að undanförnu, þá er stefnt að skráningu Arion banka á markað síðar á þessu ári og hefur undirbúningur staðið yfir undanfarin misseri, en Kvika hefur umsjón með ferlinu fyrir hönd Kaupskila.
Viðræður við lífeyrissjóði sigldu í strand, eins og fram hefur komið, en þeir ákváðu að fara ekki í frekari viðræður um að kaupa hlut í bankanum áður en útboð hæfist.
Kaupskil á 57 prósent hlut í Arion banka, vogunarsjóðir og Goldman Sachs bankinn eiga samtals um 30 prósent, beint, og íslenska ríkið á 13 prósent.