Hagnaður samstæðu Arion banka á árinu 2017 nam 14,4 milljörðum króna samanborið við 21,7 milljarða króna árið 2016. Arðsemi eigin fjár var 6,6% en var 10,5% á árinu 2016, að því er segir í tilkynningu frá bankanum.
Höskuldur Ólafsson, forstjóri bankans, segir rekstur bankans hafa gengið vel, og ánægjulegt sé að fá innlenda aðila inn í hluthafahóp bankans. „Afkoma ársins 2017 er viðunandi þótt einskiptisatburðir setji nokkurn svip á árið. Grunnrekstur bankans er góður, tekjugrunnur er sterkur og fjárhagslegur styrkur mikill. Þetta gerir bankanum kleift að ráðast í sérstaka arðgreiðslu að fjárhæð 25 milljarðar króna sem ákveðin var á hluthafafundi 12. febrúar síðastliðinn. Arðgreiðslan er í samræmi við það markmið bankans að hagræða eiginfjárhlutfalli sínu á þann veg að það verði í meira samræmi við erlenda og innlenda banka. Þrátt fyrir arðgreiðslu þá er eiginfjárstaða bankans sterk og vel umfram kröfur eftirlitsaðila.
Þá er arðgreiðslan liður í aðgerðum sem tengjast söluferli bankans en við gerum ráð fyrir að það muni setja mark sitt á árið 2018. Skráning bankans á markað, hér á landi og jafnvel erlendis, er einn af þeim kostum sem til skoðunar er. Líkur eru á að ákvörðun um næstu skref verði tekin á næstu vikum og mánuðum. „Í marsmánuði 2017 voru fyrstu skrefin í söluferli bankans tekin er þrír alþjóðlegir fjárfestingarsjóðir og fjárfestingarbankinn Goldman Sachs komu inn í hluthafahóp Arion banka. Seljandi var Kaupþing, í gegnum dótturfélag sitt Kaupskil, sem seldi um 30% hlut í bankanum. Fjárfestingarsjóðirnir Attestor Capital og Taconic Capital Advisors voru þar stærstir og eignuðust hvor um sig tæp 10% í bankanum. Attestor Capital jók síðar hlut sinn lítillega eftir að Fjármálaeftirlitið mat sjóðinn hæfan til að fara með virkan eignarhlut. Fyrr í dag var svo tilkynnt um sölu Kaupþings á um 5% hlut í bankanum til Attestor Capital, Goldman Sachs og sjóða í rekstri fjögurra íslenskra sjóðastýringarfyrirtækja. Það er sérstaklega ánægjulegt að fá innlenda fjárfesta inn í hluthafahópinn,“ segir hann meðal annars í tilkynningu.
Heildareignir Arion banka námu 1.147,8 milljörðum króna í árslok samanborið við 1.036,0 milljarða króna í árslok 2016 og eigið fé hluthafa bankans nam 225,6 milljörðum króna, samanborið við 211,2 milljarða króna í árslok 2016.
Eiginfjárhlutfall bankans var 24,0% í árslok en var 26,8% í árslok 2016.
Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 lækkaði og nam 23,6% samanborið við 26,1% í árslok 2016. Lækkun frá fyrra ári kemur einkum til vegna 25 milljarða króna arðgreiðslu eða kaupa á eigin bréfum, sem samþykkt var á hluthafafundi 12. febrúar sl. og framkvæmd verður á næstu vikum.
Í tilkynningunni segir að Arion banki hafi sett sér það markamið að vera með útlánavöxt, sem sé umfram almennan vöxt í hagkerfinu, og að það hafi tekist á árinu 2017. Vöxturinn hafi verið um 7 prósent, og meðal annars hafi bankanum tekist að halda vaxtarmarkmiðum í fasteignalánum, þrátt fyrir vaxandi samkeppni frá lífeyrissjóðum.
Höskuldur fjallar einnig um erfiðleika United Silicon, en bankinn hefur þegar afskrifað um 5 milljarða vegna gjaldþrots þess og erfiðleika. Hann segir ánægjulegt að finna fyrir því, að bankinn muni geta komið eignum í verð. „Erfiðleikar og gjaldþrot kísilverksmiðju United Silicon setti mark sitt á afkomu ársins en niðurfærslur Arion banka á lánum og fjárfestingu í félaginu námu um 4 milljörðum króna að teknu tilliti til skattaáhrifa. Það stóð ekki til að bankinn yrði hluthafi í félaginu en eftir því sem erfiðleikar þess jukust varð bankinn að stíga inn, m.a. í formi hlutafjáraukningar. Arion banki hefur óskað eftir því við skiptastjóra þrotabúsins að ganga að veðum bankans í félaginu með það að markmiði að gera nauðsynlegar úrbætur á verksmiðunni og selja hana eins fljótt og auðið er. Það er jákvætt að við verðum vör við mikinn áhuga á kísilverksmiðjunni meðal alþjóðlegra aðila í kísiliðnaði,“ segir Höskuldur.