Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra boðaði ýmsar aðgerðir til að mæta komandi tæknibreytingum á samfélaginu í ræðu sinni á Viðskiptaþingi í dag.
Katrín sagði samfélagið vera að breytast og setja þurfi markmið til að hægt sé að nýta hraðar tæknibreytingar til góðs fyrir okkur öll. Taka þurfi þátt í rannsóknum og þróun á gervigreind og sjálfvirkni, tryggja menntun og fræðslu í takt við nýja tíma, tryggja ábyrgan og réttlátan vinnumarkað, réttindi launafólks og nýta tæknibreytingar til að bæta kjör. Taka þurfi forystu í að endurskoða löggjöf og regluverk samfélagsins til að mæta tæknibreytingum.
Í þessu skyni hefur forsætisráðherra sett tæknibreytingar á dagskrá nokkurra ólíkra vettvanga. Þannig hefur hún óskað eftir því að Samráðsvettvangur um aukna hagsæld taki fjórðu iðnbyltinguna á dagskrá og vinni aðgerðaráætlun fyrir íslenskt atvinnulíf og vinnumarkað. Samráðsvettvangurinn er undir forystu Katrínar Olgu Jóhannesdóttur, formanns Viðskiptaráðs og Rögnu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, en þar sitja einni fulltrúar stjórnmálaflokka, atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar. Samráðsvettvangurinn var settur á laggirnar árið 2013 að tillögu alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company.
Þá verður þáttur vísinda og rannsókna settur á dagskrá Vísinda- og tækniráðs. Katrín sagði að þar þurfi að horfa til lengri tíma, gera áætlanir um menntun frá fyrstu skólastigum, grunnrannsóknir og hvernig við getum tryggt að nýsköpun á þessu sviði eins og raunar fleirum, geti vaxið og dafnað hér á landi. Vísinda- og tækniráð starfar samkvæmt samnefndum lögum. Forsætisráðherra er formaður ráðsins en þar sitja einnig mennta- og menningarmálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Formaður skipar tvo menn í ráðið auk þess sem 14 fulltrúar eru tilnefndir í ráðið af ráðuneytum, háskólum og aðilum vinnumarkaðarins.
Að auki verður sett á laggirnar svokölluð framtíðarnefnd á Alþingi, eins og kveðið var á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þessi nefnd verður að sögn Katrínar að finnskri fyrirmynd en þar hefur í um 25 ár verið starfandi nefnd með þingmönnum úr öllum flokkum sem er einskonar hugveita þingsins um framtíðarmálefni. Framtíðarnefndinni í Finnlandi hefur verið ætlað að skapa umræðu við stjórnvöld um tækifæri og ógnanir til framtíðar og senda reglulega frá sér vandað efni um framtíðarmálefni. „Starf finnsku nefndarinnar hefur reynst mikilvægt við að forgangsraða markmiðum sem Finnar setja á dagskrá en þeir hafa að mörgu leyti verið til fyrirmyndar með því að vinna markvisst að því að efla stöðu finnsks samfélags á mikilvægum framfarasviðum,“ sagði Katrín.