Hagnaður Íslandsbanka, sem er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, var 13,2 milljarðar króna eftir skatta á árinu 2017. Það er umtalsvert minni hagnaður en árið áður þegar bankinn hagnaðist um 20,2 milljarða króna. Munurinn orsakast að mestu leyti á því að á árinu 2016 fékk Íslandsbanki einskiptishagnað upp á 5,4 milljarða króna vegna sölu Borgunar á hlut sínum í Visa Europe, en bankinn er stærsti eigandi Borgunar. Hagnaður af reglulegri starfsemi var 13,8 milljarðar króna.
Heildareignir bankans voru metnar á 1.036 milljarða króna og þar af voru útlán við viðskiptavina og lausafé 92 prósent af þeirri upphæð. Eiginfjárhlutfallið var 24,1 prósent. Arðsemi eigin fjár dróst saman á síðasta ári. Þá var hún 10,3 prósent en hafði verið 10,7 prósent árið áður.
Bankinn er fyrstur stóru bankanna þriggja til að birta reikning sinn fyrir árið 2016 en hinir tveir, Arion banki og Landsbankinn, munu gera slíkt hið sama síðar í vikunni. Arion banki mun birta síðar í dag og Landsbankinn á föstudag.
Í fréttatilkynningu er haft eftir Birnu Einarsdóttur bankastjóra að árið í fyrra hafi verið ár breytinga og uppbyggingar. „Við innleiddum nýtt skipulag, fullkláruðum flutning í nýjar höfuðstöðvar og endurnýjuðum grunnkerfi bankans. Við héldum áfram að undirbúa bankann fyrir breytt alþjóðlegt regluverk, tæknilegar áskoranir og að takast á við nýja keppinauta á markaði.
Þrátt fyrir þessar miklu breytingar gekk rekstur bankans mjög vel á árinu. Lánasafn bankans óx um 9,8% og námu ný lán 199 milljörðum króna og skilaði bankinn 13,2 milljarði króna hagnaði eftir skatta með arðsemi af reglulegri starfsemi upp á 10,3% sem er í samræmi við okkar markmið.
Lánshæfismat bankans hækkaði og stigum við frekari skref í átt að hagstæðari fjármagnsskipan með fyrstu víkjandi skuldabréfaútgáfu íslensks fjármálafyrirtækis á erlendum markaði frá árinu 2008.
Bankinn hélt stöðu sinni á árinu sem leiðandi bankastofnun á Íslandi í þjónustu við viðskiptavini en fimmta árið í röð mældist bankinn hæstur í Íslensku ánægjuvoginni og í flestum þáttum þjónustukannana á meðal einstaklinga og fyrirtækja og var jafnframt valinn besti bankinn á Íslandi að mati The Banker.
Við erum spennt að kynna ýmsar nýjungar á komandi misserum sem munu gagnast viðskiptavinum okkar og treysta stöðu Íslandsbanka sem leiðandi fjármálafyrirtækis á Íslandi.“